AFL starfsgreinafélag

Til góðra verka

 

AFL starfsgreinafélag AFL starfsgreinafélag AFL starfsgreinafélag AFL starfsgreinafélag AFL starfsgreinafélag AFL starfsgreinafélag AFL starfsgreinafélag

Samstaða í 100 ár – sókn til nýrra sigra!

Með yfirskrift dagsins er annars vegar verið að vísa til þess að 12. mars síðast liðinn átti Alþýðusamband Íslands 100 ára afmæli.

Samstaða launafólks í þessi 100 ár gerði verkalýðshreyfinguna að mikilvægasta aflinu í baráttunni fyrir bættum kjörum og réttindum á öllum sviðum.

Hún hefur jafnframt verið  öflugasta samfélagshreyfing landsins og mikilvægasti gerandinn við mótun velferðarsamfélags á Íslandi. Og einmitt þess vegna er mikilvægt að við minnumst sögunnar -  þeirra fórna sem þeir sem gengu á undan okkur færðu og þess mikilvæga árangurs af starfi verkalýðshreyfingarinnar, sem við njótum í dag.

Það var á brattan að sækja þegar eignalaust alþýðufólk fór að skipa sér í félög og hafa uppi kröfur. Atvinnurekendur voru vanir að komast upp með nánast hvað sem er en með stofnun verkalýðsfélaganna jöfnuðum við leikinn lítið eitt og við náðum að takast á við sumt af því ömurlegasta sem hafði viðgengist í atvinnulífinu.

Fyrir daga verkalýðsfélaga stóð fólk oftast eitt í sinni baráttu og það gegn ofurvaldi atvinnurekanda sem hafði yfirvöld á sínu bandi. Fólk stóð eitt og umkomulaust og átti sér venjulega enga málsvara og engann stuðning.

Það var því ekki að undra að yfirvöld og atvinnurekendur tækju það óstinnt upp þegar menn fóru að skipa sér í félög og setja fram kröfur um kaup og aðbúnað. 

Sem betur fer var þessi barátta ekki mannskæð á Íslandi en víða um heim urðu miklar blóðsúthellingar. Og við eigum að hafa það líka í huga því verkalýðsbaráttan er alþjóðleg og við höfum einnig notið árangurs sem náðst hefur jafnvel í fjarlægum löndum.

Það er kannski vert að rifja það upp í tilefni dagsins – af hverju við höldum fyrsta maí og af hverju við sameinumst víða um heim þennan dag til að sýna samstöðu og hefja kröfur okkar á loft.

Þessi baráttudagur á sér á annað hundrað ára sögu og var upphaflega valinn af alþjóðasamtökum verkalýðsfélaga  til að minnast blóðsúthellinga í Boston í Bandaríkjunum. Og fyrir okkur sem flest þekkjum ekki annað en átta stunda vinnudag – áður en yfirvinna er greidd – er vert að hafa í huga að í þessum verkfallsátökum sem háð voru til að knýja á um 8 stunda vinnudag – var verulegt mannfall.

 

Stjórnvöld tóku af lífi fjóra verkfallsmanna, einn fyrirfór sér í fangaklefa fyrir aftökuna. Tveir aðrir voru dæmdir til dauða – en dómnum breytt í fangelsisdóm af ríkisstjóra og sá áttundi dæmdur til 15 ára fangelsisvistar.

Þessir menn létu lífið í baráttu fyrir átta stunda vinnudegi en verkalýðsbaráttan var hörð og öllum meðölum beitt. Atvinnurekendur sóttu verkfallsbrjóta til annarra bæja og borga og unnið var í skjóli vopnaðra manna. Verkfallsmenn sem voru að berjast fyrir tilveru sinni og stóðu örsnauðir fyrir utan verksmiðjurnar og horfðu á menn ganga í störf sín í skjóli vopnaðra varða – og gripu oft til örþrifaráða einnig. Í þessum átökum sem kennd eru við Haymarket í Boston féllu sex lögreglumenn og einhver óþekktur fjöldi verkfallsmanna auk þeirra sem teknir voru af lífi af yfirvöldum. En átta stunda vinnudagurinn náðist og við búum enn að þeim áfangasigri.

Ástæða þess að þetta er rifjað upp hér  - er að við tökum oft réttindum okkar og lífsgæðum sem einhverjum náttúrulögmálum.

Að kjör okkar og mannréttindi hafi fallið af himnum ofan og að starf verkalýðsfélaga sé bara eitthvað saklaust orlofshúsadútl.

En - nei því miður er það ekki svo. Baráttan heldur alltaf áfram og aldrei má sofna á verðinum.

Réttur alþýðufólks og launafólks hefur verið lítill nánast alla sögu mannkyns – og yfirstéttin hefur lengst af í sögunni litið á allan almenning sem nánast réttlausa vinnumaura og fallbyssufóður í baráttunni fyrir meiri auð og meiri völdum.

Á öldum áður héldu menn völdum með hervaldi og ógnarstjórn og enn er það stundað víða um heim. En í hinum vestræna heimi nota menn aðrar aðferðir – þar njótum við svokallaðs lýðræðis og okkur finnst við hafa eitthvað um samfélagið að segja.

En þegar grannt er skoðað hafa auðmennirnir alltaf haft tögl og haldir þó svo að við höfum náð árangri og náð að byggja upp einhvern vísi að velferðarsamfélagi. En síðustu áratugi hefur aftur sigið á ógæfuhliðina og  misskipting gæða farið vaxandi og ríkasta 1% jarðarbúa tekið æ meira til sín.

Réttur til heilbrigðisþjónustu er ekki sjálfsagður alls staðar í heiminum og hér hjá okkur eru blikur á lofti og við sjáum æ oftar dæmi  um það að efnalítið fólk þurfi að neita sér um læknisþjónustu eða lyf vegna fátæktar.

Menntun og menning hefur lengst af verið forréttindi þeirra efnameiri og meira að segja þar er farið að sauma að efnaminna fólki.

Húsnæðismál eru í uppnámi og ungt fólk hefur orðið takmarkaða möguleika til að kaupa húsnæði og leiguhúsnæði er af skornum skammti og leiguverð í hæstu hæðum í samkeppni við ferðamenn.

Við stöndum því frammi fyrir því að áfangasigrar fyrri ára eru í hættu – að samfélagssáttmálinn sem við héldum að væri í höfn  - er í uppnámi. Það er komið tómahljóð í velferðarkerfið og einkavæðingarstefið hljómar æ sterkar og það jafnvel á þeim stöðum sem við teljum til grunnstoða réttláts samfélags – eða í heilbrigðisþjónustu og í menntakerfinu.

Við hljótum að spyrja okkur hvort barátta okkar skili nægilegum árangri. Ef við horfum til þess að á síðustu 2 – 3 áratugum hefur orðið til fjölmenn stétt auðmanna sem virðast eiga miklu meiri auðæfi en áður hefur þekkst hér á landi – en á sama tíma er svo þrengt að allri alþýðu manna að fólk er farið að neita sér um heilbrigðisþjónustu og börn efnaminna fólks er farið að hrökklast úr námi – þá er augljóslega eitthvað mikið að.

Launafólk hefur tekið að sér að bera ábyrgð á efnahagskerfinu með gerð hinna svokölluðu ábyrgu kjarasamninga. Með því verða launin okkar alltaf afgangsstærð þegar fjármálakerfið er búið að taka sitt.

Við verðum ekki vör við að aðrir taki ábyrgð – því launaskrið stjórnenda og launaskrið í fjármálakerfi er ekki í neinu samræmi við launaþróun almennings.  Kannski eigum við að kasta ábyrgðinni frá okkur og  freista þess að taka til okkar eins mikið og við getum og gera það með átökum.

Það er nefnilega þannig að meðal mótaðila okkar við samningaborðið sitja menn sem hafa það að heimspeki að græðgi sé góð – að græðgi skapi hvatningu til verðmætasköpunar.

Þetta er sú heimssýn sem hefur barið á þjóðinni í mörg ár – græðgi er góð – skattar eru slæmir – verkalýðsbarátta er gamaldags – græðgi er góð. Það er sama speki og telur atvinnulausa og öryrkja til bagga á samfélaginu en finnst sjálfsagt að veita milljörðum til að styrkja tilteknar atvinnugreinar.

Því miður er það svo að þessi heimsýn hefur unnið marga sigra á síðustu árum og ekki bara á Íslandi heldur víðast um heiminn en nú er komið að skuldadögum.  Um allan heim eru menn að byrja að átta sig á því hversu miklum skaða þessi heimssýn hefur valdið. Fólk er að átta sig á því að millistéttin er að verða eignalaus – sokkin í skuldafen og að fátækara fólk er að verða umkomulausara en í marga áratugi.

Fólk er farið að sjá að einkavæðingar á sjálfsagðri opinberri þjónustu hefur sjaldnast orðið annað en einkavinavæðing og skotleyfi auðmanna á almenning sem þarf að borga æ meir fyrir æ lélegri þjónustu.

Gróðinn er síðan fluttur úr landi og hverfur úr hagkerfinu. Almenningur situr eftir forviða – enda hefur ekki hagur neins batnað við öll þessi fjármálastórvirki nema þá hinna útvöldu sem eru orðin þjóð ofar þjóðinni. Þjóð sem ekki virðir lög og reglur og hefur eitthvað prívat siðferði sem almennt launafólk ekki kannast.

Einn fulltrúi þessarar stéttar kallaði það „óábyrga meðferð fjármuna“ að skila til baka broti af því sem hann hafði komist með úr landi. Forsætisráðherra telur það ýmsum annmörkum háð að geyma fé á Íslandi og því sé það skiljanlegt að menn standi í viðskiptum á aflandseyjum og skattaparadísum.

Uppljóstranir úr hinum svokölluðu Panamaskjölum valda nú miklum titringi víða um heim – enda færa þau sönnur á það sem haldið hefur verið fram – að auðstéttir allra landa hafa sameinast í því að skjóta eignum sínum undan og fela þær til að losna við skattgreiðslur. Einnig geta menn stundað hvers kyns viðskipti í skjóli nafnleyndar – mögulega siðlaus innherjaviðskipti sem ekki stæðust neina skoðun ef vitað væri hverjir stæðu á bak.

Þetta er hægt af því að það eru valda-og auðstéttirnar sem skrifa lögin og skipa í embættismanna og dómarastöður. Þeir mynda sín á milli ,,viðskiptasambönd“ þar sem sameiginlegar eignir þjóðarinnar eru færðar nokkrum sinnum milli gervifyrirtækja uns þeim er haganlega komið í skattaskjólum í útlöndum.

Það má telja líklegt að fámenn klíka íslenskra auðmanna eigi bróðurpartinn af kröfum á föllnu bankana. Að þeir hafi í skjóli siðlausra milliliða staðið í stórfelldum fjármagnsflutningum til aflandseyja og síðan keypt kröfur á íslensku bankana á hrakvirði og eftir stórfellt gengishrun. Eftir sitja með sárt ennið þeir sem lánuðu stórfé til íslenska efnahagsundursins og afskrifuðu síðan eftir að bankarnir hrundu  - og svo og ekki síst íslenskt launafólk sem mátti þola tugprósenta gengishrun og að þurfa að herða sultarólar til að safna upp í þessar „erlendu skuldir“ sem eru hreint ekki erlendar heldur skuldir við hina íslensku hrægamma sem keyptu upp kröfurnar á földum kennitölum.

Þannig hefur þessi þjóð auðmanna sem flaggar íslenskum vegabréfum – tekið sér sess utan laga og utan réttar. Falið rétt andlit sitt á aflandseyju og kaupir hér upp fjölmiðla og völd til að tryggja sér auðsveipa stjórnmálamenn sem treystandi er til að verja auðstéttina. Við hin megum svo borga brúsann.

Skattsvik og undanskot eigna er meinsemd sem er að ganga frá samfélagsvitund um allan heim dauðri. Skatttekjur frá launafólki dugar varla til að halda uppi grunnþjónustu á meðan auðstéttir stela öllu sem ekki er naglfast og koma undan til aflandseyja.  Því eru innviðir margra ríkja að bresta – menntakerfi og heilbrigðisþjónusta að verða forréttindi hinna ríku og gengið er harkalega gegn rétti launafólks og víða stundaðar grímulausar ofsóknir á verkalýðsfélögum og rétti manna til að stofna félög og vernda hagsmuni sína.

Er það ekki hlutverk stjórnvalda að sjá til þess að allir þegnar landsins greiði skatta til samfélagsins eftir þeim reglum sem um skattgreiðslur gilda á hverjum tíma?

Eða á það að vera hlutverk launafólksins eins, að halda uppi því velferðarkerfi sem við gerum kröfu um að hafa? – Nei og aftur nei og ég held að við sem hér erum í dag séum sammála því að allir – já allir þurfa að taka þátt.

Verkalýðsbaráttan er ekkert búin, en hún er að breytast. Við héldum kannski að við hefðum náð einhverjum samfélagssáttmála og síðan væri það vinna að útfæra hann – auka smátt og smátt við réttindi og bæta kjör og að þannig væri tími hinna stóru átaka að mestu liðinn. Af fréttum undanfarinna vikna virðist vera sem að þetta sé allt misskilningur.

Tími hinna stóru átaka er að renna upp – og þessi átök verða alþjóðleg og þau verða flókin og þau verða erfið. Ef við ætlum ekki að láta auðstéttirnar ná öllum völdum þurfum við að rísa upp og það þarf að breyta regluverkinu og fjármálakerfinu og þar verðum við að byrja á því að taka til hjá okkur.

Já-tími hinna stóru átaka er rétt að byrja- Nýjasta upp­finn­ingin í brota­starf­semi er ungt fólk, sem fengið er hingað erlendis frá til sjálf­boða­liða­starfa eða í starfs­þjálfun, sem er ekkert annað en dulbúið und­ir­boð á vinnu­mark­aði.

Fyrirtæki sem kalla sig alvöru, auglýsa eftir sjálfboðaliðum til að vinna hefðbundin störf - störf sem félagsmenn okkar eru að vinna í dag og fá greidd laun fyrir, en hversu  lengi verða greidd laun fyrir vinnu sem hægt er fá fólk til að inna af hendi fyrir engin laun?

Já góðir félagar  – það gæti verið vinnan þín!

Við fáum ógnvægilegar fréttir af því að fólki sé haldið í ánauð hér á landi og þrælað út. Fyrir okkur hér á Austurlandi minnir þetta á uppbyggingartíma Kárahnjúkavirkjunar þar sem allt mátti, og ekkert mátti gera sem tafið gæti framkvæmdir. Þá stóð AFL eitt í baráttunni, ekki bara baráttu við fyrirtækin sem svínuðu á starfsmönnum- heldur líka við opinberar stofnanir þar sem dagskipunin virtist vera- áfram, áfram, sama hvað það kostar.

Fréttir síðustu vikna hljóða upp það að laun, öryggi og aðbúnaður séu aukaatriði hjá vafasömum vinnuveitendum sem knúnir eru áfram af gróðahyggju, slösuðum starfsmanni sagt að leggjast sig á dýnuskrifli á skítugu gólfi á byggingarstað til að jafna sig.

Einn réttur – ekkert svindl, átakið hefur verið endurvakið og virðist ekki vera vanþörf á því. Verkefnið miðar að því að tryggja að ekki sé brotið á því launafólki sem veikustum fæti standi á vinnumarkaðnum og um leið að verja kjör og réttindi hinna sem barist hefur verið fyrir frá stofnum verkalýðsfélaganna.

Allt launafólk ætti að leggja verkefninu lið og láta vita af því ef grunur um réttindabrot geti verið að ræða.

Öll fyrirtæki sem kalla sig alvöru, ættu að leggja verkefninu lið.

Allar stofnanir þjóðfélagsins sem snúa að öryggis- og réttindamálum ætti að leggja verkefninu lið.

Þú – ágæti áheyrandi ættir að leggja verkefninu lið.

Góðir félagar – því miður er það svo að verkefnum okkar er hvergi nærri lokið og á næstu mánuðum, misserum og árum mun reyna á samstöðu alþýðu manna – við verðum að endurheimta samfélagið aftur úr höndum gróðaafla sem hafa það að leiðarljósi að græðgi sé góð.

einn rettur logo 002            VIRK starfsendurhæfingasjóður     vertuaverdi