AFL starfsgreinafélag

Til góðra verka

 

AFL starfsgreinafélag AFL starfsgreinafélag AFL starfsgreinafélag AFL starfsgreinafélag AFL starfsgreinafélag AFL starfsgreinafélag AFL starfsgreinafélag

Skrifstofa AFLs rústir einar - hamfarir á Seyðisfirði

rústir af tækniminjasafni ofl.

Ljós­mynd/​Tækni­m­inja­safn Aust­ur­lands, þarna eru væntanlega rústir af skrifstofu AFLs á Seyðisfirði í bland við aðrar rústir.

 

 

 

Skrifstofa AFLs á Seyðisfirði var í húsinu nr. 28 við Hafnargötu, svokallaðri Silfurhöll.  Það hús varð fyrir seinni skriðunni sem féll 18. des sl. og gereyðilagðist eins og fleiri hús sem lentu í þeirri skriðu.  Tjón félagsins í samhengi þessara hamfara - er léttvægt en þetta mun engu að síður hafa áhrif á starfssemi okkar á Seyðisfirði næstu mánuði eða misseri.  Þessi skrifstofa hefur reyndar verið með óreglulegan opnunartíma - þar sem starfsmaður okkar á Seyðisfirði hefur að mestu verið við störf á Egilsstöðum.  Skrifstofan hefur því mest verið notuð við einstök verkefni og eins hefur starfsmaður okkar á staðnum verið með viðveru á Seyðisfirði þegar heiðin er torsótt eða aðrar aðstæður kalla á.

Skriðuföllin á Seyðisfirði hafa haft víðtæk áhrif - og hefur félagið reynt að bregðast við þar sem við höfum getað orðið að gagni.  Orlofshús félagsins á Einarsstöðum urðu fljótt fullbókuð á föstudaginn en önnur verkalýðsfélög sem einnig eiga hús á Einarsstöðum buðu fljótt fram sín hús einnig.  Einhverjir félagsmanna munu væntanlega vera á Einarsstöðum eitthvað áfram á meðan unnið verður úr málum þeirra en nokkar fjölskyldur á Seyðisfirði hafa glatað öllu sínu í þessum hamförum.

AFL sendi björgunarsveitinni Ísólfi nokkurn fjárstuðning á föstudaginn og vonar stjórn félagsins og starfsfólk að það hafi komið sér vel á þessum átakatímum. Það tíðkast nú að segja að "hugur manns" sé hjá Seyðfirðingum. Það þarf varla að taka það fram á Austurlandi því vandfundinn er sá Austfirðingur sem ekki á fjölskyldu, ættar-eða vinatengsl við fjörðinn fagra sem nú er í sárum.

AFL - stjórn félagsins og starfsfólk sendir íbúum Seyðisfjarðar bestu kveðjur og ósk um að þeir nái með góðri aðstoð, að byggja bæinn sinn aftur upp og verja byggðina fyrir hamförum og að með bættum samgöngum nái Seyðisfjörður með sitt litríka mannlíf, vopnum sínum að nýju. 

Drífa Snædal, forseti Alþýðusambands Íslands sendi í morgun ábendingu til aðildarfélaga sambands um það hvort félögin gætu komið Seyðfirðingum til aðstoðar. Í því sambandi sendi Drífa félögunum reikningsupplýsingar Rauða Kross deildarinnar á Seyðisfirði og Björgunarsveitarinnar Ísólfs.  Einnig ábendingu til þeirra félaga sem eiga orlofshús á Héraði um húsnæðisvanda þeirra sem hafa misst allt sitt.  AFL og aðrir Austfirðingar þakkar Drífu fyrir þessa hvatningu til verkalýðsfélaga landsins.

 

Silfurhöllinn fyrir þennan atburð

Silfurhöllin

einn rettur logo 002            VIRK starfsendurhæfingasjóður     vertuaverdi