AFL starfsgreinafélag

Til góðra verka

 

AFL starfsgreinafélag AFL starfsgreinafélag AFL starfsgreinafélag AFL starfsgreinafélag AFL starfsgreinafélag AFL starfsgreinafélag AFL starfsgreinafélag

Hin hliðin á fréttunum

Þegar atkvæðagreiðsla um verkfallsboðun í fiskimjölsverksmiðjum stendur sem hæst á Austurlandi og Vestmannaeyjum er við hæfi að fara yfir helstu atriði í málinu:Samtök atvinnulífsins hafa farið mikinn í fjölmiðlum vegna „ofurlauna“ starfsmanna fiskimjölsverksmiðja og háum launakröfum.

Á sama tíma hefur kröfum okkar verið hafnað og málamyndatilboð sett fram á móti. Skoðun okkar er því að verulega skorti á samningsvilja Samtaka Atvinnulífsins og að ef tjón verður vegna verkfallsins má skrifa það tjón á Samtök atvinnulífsins sem létu frá sér gullið tækifæri sl. laugardag til að ná góðum samningi.

Efnisatriðin eru þessi:

1.    Ofurlaun:  Starfsmaður í fiskimjölsverksmiðju með 7 ára starfsreynslu og námskeið í greininni er með 235.900 kr. í mánaðarlaun.  Vissulega ekki lægstu laun sbr. taxta SGS en þeir sem kalla þetta há laun verða að eiga það við sjálfa sig.Það hefur verið vitnað til þess að þetta séu hæst launuðu menn í sínum byggðalögum. Í fyrsta lagi er þetta rakalaust kjaftæði og í öðru lagi geta menn sjálfir reiknað út hvað maður með 236 þúsund króna mánaðarlaun þarf að vinna mikið til að ná t.d. 5 milljóna króna árslaunum.Því miður hefur Samtökum atvinnulífsins tekist að villa um fyrir fjölmiðlafólki sem fjallar um árstekjur án tillits til vinnutíma og vinnuframlags.Staðreyndin í málinu er að bræðslumenn eru með akkúrat þessi mánaðarlaun og hvorki meira né minna og fólk verður að gera sjálft upp við sig hvort það eru há laun eða lág en þegar fjallað er um árstekjur verður að horfa til vinnutíma.

2.            Árstekjur bræðslumanna geta verið góðar þegar eitthvað fiskast til bræðslu. En það fiskast ekki alltaf og það hafa verið mögur ár og lítið um vaktir. Þau ár og þau tímabil eru mánaðartekjurnar 236.000 krónur.

3.            Ofsakröfur bræðslumanna. SA hefur tekist að láta bræðslumenn líta út nánast eins og frekjur sem heimta allt af öðrum og að verði látið undan kröfum þeirra þá fari allt á hliðina í landinu og verðbólga fari í nýjar hæðir og aðrir launþegar fái þá ekkert í sinn hlut.

Ekkert af þessu heldur vatni. Í fyrsta lagi taka bræðslur og annar útflutningur nú til sín „ofsagróða“ m.a. með háu afurðaverði og gengisskráningu í sögulegu lágmarki. Okkar menn vilja bara hluta af þessum hagnaði – hluta – innan við helming, því það má auðveldlega sýna fram á að hlutfall launakostnaðar af afurðaverði í íslenskum krónum hafi lækkað um meira en 50% síðan við sömdum síðast – í því ljósi virkar 27% krafa ekki svo há.Í annan stað má nefna að sl. laugardag gengu bræðslumenn AFLs og Drífanda á fund SA hjá sáttasemjara með tilboð um samning fram til 30. nóvember 2011 með 20.000 krónu hækkun á taxta, þ.e. ca.  7,5% . Jafnvel eftir að það tilboð var gert hélt áróðursmaskína SA áfram að tala um „ofurkröfur“.SA hafnaði tilboðinu.

4.            Annað launafólk borgi brúsann. Í dag rennur gróðinn óskiptur til eigenda og til fjárfestinga innan lands eða utan – eða er greiddur út sem arður til hluthafa. Okkur er ekki kunnugt um að annað launafólk njóti gróðans núna né heldur að áformað sé að gróða bræðslanna eða útflutningsins sé ætlað að renna annað en í vasa eigenda.

5.            Verðbólguáhrif bræðslusamninga: Þeir sem geta reiknað út verðbólguáhrif af bræðslusamningum gera það með nýjum og áður óþekktum aðferðum þar sem kostnaðarauki kæmi einfaldlega af gróða fyrirtækjanna og greiddum arði en kæmi hvergi við verðlag.

6.            Það er ekki hægt að semja við svona lítinn hóp því það hefði fordæmisgefandi áhrif fyrir aðra samninga á launamarkaði. Við þessu er fátt að segja annað en að þakka fyrir fullvissu um að sá besti kjarasamningur sem SA mun gera á næstu mánuðum verður því sjálfgefinn fyrir alla aðra viðsemjendur. Fyrir slíkan rausnarskap ber að þakka.

7.            Er samningsvilji hjá SA. Við efumst um það eftir helgina. Gagntilboðin sem við fengum voru varla marktæk. Annað var um samning  með óútfylltum launahækkunum og óútfylltum samningstíma – þessi atriði áttu að koma með „autoforward“ úr almennum SGS samningi. Við spurðum – er verið að bjóða þetta fram sem alvöru kjarasamning? Hitt tilboðið var upp á 3ja ára samning með 3 x 2,5% hækkunum. Tilboð sem ASÍ, SGS og fleiri hafa hafnað?

8.            Eru bræðslumenn óábyrgir og í einleik. Við buðumst til að kalla til formann SGS og sérfræðinga ASÍ ef SA hefði svona miklar áhyggjur af fordæmisgildi samninga við okkur. Við buðumst til að hafa fullt samráð við Alþýðusambandið og landssamböndin ef menn vildu í alvöru ræða samning til 30. nóvember með einföldum taxtahækkunum. Það var afþakkað.

9.            Niðurstaða helgarinnar í mínum huga er sú að SA er ekki tilbúið til viðræðna um alvöru kjarasamning. Innan SA  virðist sem reka eigi harða stefnu og bjóða engar málamiðlanir.

10.          Ef atvinnurekendur ætla að reka „samræmda launastefnu sína“ (ath. að Alþýðusambandið á hvergi hlut að máli í „launastefnu SA“) ofaní kok á öllum launþegum og það þó ekki fyrr en ríkisstjórnin hefur afgreitt fiskveiðistefnu sem er samtökunum hugleikin – er ljóst að það er verið að ögra verkalýðsfélögunum og félagsmönnum þeirra til aðgerða.

11.          Sl. laugardag gengu bræðslumenn á fund SA með hóflegt tilboð – tilboð sem trúnaðarmenn samþykktu  - ekki með glöðu geði – heldur til að freista þess að ná raunhæfum samningi. Með því að hafna því án raunverulegs gagntilboðs kastaði SA grímunni og verði verkfall má rekja það beint til SA – ekki til bræðslumanna. 

Sverrir Albertsson – talsmaður samninganefndar Bræðslumanna

einn rettur logo 002            VIRK starfsendurhæfingasjóður     vertuaverdi