AFL starfsgreinafélag

Ertu með ráðningarsamning? - Ekki láta svindla á þér!

Radning

Þótt þú sért bara að ráða þig í vinnu í stuttan tíma, eins og til dæmis í skólafríinu, borgar sig alltaf að gera ráðningarsamning. Ef maður er ráðinn til lengri tíma en eins mánaðar, þá á að gera skriflegan samning. 

Um leið og atvinnurekandi hefur samþykkt að ráða þig í vinnu, er í rauninni kominn á ráðningarsamningur. Réttindin sem fylgja slíkum samningi, eins og uppsagnarréttur, veikindaréttur og þess háttar, verða samt ekki virk fyrr en þú byrjar að vinna. 

Ráðningarsamningur er samningur á milli þín (starfsmanns) og fyrirtækis (atvinnurekanda) um samskipti, réttindi og skyldur. Þú skuldbindur þig til þess að vinna fyrir atvinnurekandann og fá greiðslu (laun) fyrir.

Þó svo að það teljist í gildi ráðningarsamningur, jafnvel þótt ekkert undirritað plagg sé til staðar - þá borgar sig alltaf að ganga frá slíkum hlutum skriflega. Það einfaldar alla hluti - fyrir þig og líka fyrir atvinnurekandann, ef upp koma vafaatriði.

Tímabundnir og ótímabundnir ráðningarsamningar

Ráðningarsamningar geta verið annaðhvort tímabundnir eða ótímabundnir. Sé ekki sérstaklega tekið fram að ráðningarsamningur sé tímabundinn, er hann ótímabundinn. Sé samningur tímabundinn skal tilgreina gildistíma hans, þ.e. frá hvaða tíma og til hvaða tíma hann gildir. Tímabundinn samningur getur einnig verið bundinn ákveðnu verkefni, t.d. afleysing í fæðingarorlofi hjá tilteknum aðila o.s.frv.

Munurinn á tímabundnum ráðningarsamningi og ótímabundnum er aðallega sá, að það þarf ekki að segja upp tímabundna samningnum. Það er búið að ákveða starfslokin fyrirfram. Meðan á tímabundnum ráðningarsamningi stendur, nýtur starfsmaðurinn allra allmennra réttinda, veikindaréttar, orlofsréttar og annarra réttinda sem samið er um í kjarasamningi. 

Ekki hika við að minna atvinnurekandann á ráðningarsamninginn. Það á að gera skriflegan samning.

Sjá nánar um ráðningarsamninga:
 

Félagssvæði AFLs Starfsgreinafélags er frá Skaftafelli og austur um land allt að Þórshöfn á Langanesi. Ef þú vinnur verkamannastörf, við umönnun, í ferðaþjónustu, verslun-eða veitingastað eða í byggingarvinnu, sjómennsku eða ótal önnur störf er AFL þitt stéttarfélag. Við erum aðeins einum tölvupósti frá þér  - sendu okkur línu á This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. og við getum svarað spurningum sem þú kannt að hafa.

Ef það vantar upp á launin þín, tímaskráning vitlaus eða önnur vandamál koma upp – þá leitarðu til okkar og við sjáum um málið.  Þess vegna ertu í stéttarfélagi.