AFL starfsgreinafélag

Til góðra verka

 

AFL starfsgreinafélag AFL starfsgreinafélag AFL starfsgreinafélag AFL starfsgreinafélag AFL starfsgreinafélag AFL starfsgreinafélag AFL starfsgreinafélag

Sterkari saman - 1. maí ávarp AFLs Starfsgreinafélags

1maiDjupiv

Á Íslandi er í dag mikil velmegun. Glæsibílar seljast sem aldrei fyrr og flugfélög og ferðaskrifstofur anna varla eftirspurn. Krónan er sterk og kaupmáttur góður. Þetta er veruleikinn og af hverju segjum við ekki hlutina eins og þeir eru?

En það er galli á.

Þetta er veruleiki sumra – en ekki allra. Því á sama tíma og velmegun er mikil er fátækt vaxandi.   Svona er Ísland í dag.

Við vorum hér í eina tíð stolt af því að Ísland væri stéttlaust samfélag – að hér væru allir jafnir.   Það hefur aldrei verið satt og það er enn fjær sannleikanum nú en í marga áratugi. Það er nefnilega þannig, að ríkidæmi þeirra sem kaupa lúxusbílana og byggja glæsihúsin er ekki bara byggt á þeirra dugnaði heldur og ekki síður á vinnu okkar hinna.

Veruleikinn sem blasir við almennu launafólki á lægri töxtunum er allt annar en veruleiki þeirra tekjuhærri. Veruleiki tekjulægra fólksins er að neita sér um læknisþjónustu og fresta lyfjakaupum fram að næstu mánaðamótum.  Veruleiki unga fólksins er að búa áfram í kjallaranum hjá pabba og mömmu eða vera ofurseld leigumarkaði frjálshyggjunnar.

Súpueldhús, biðraðir hjá mæðrastyrksnefnd og fátækrahjálp. Hvern óraði fyrir að þetta yrði veruleiki hjá þjóð sem annars stærir sig af því að vera flottust í öllu.

Hvar er okkar starf í áratugi?  Hvar er árangur félagshyggjuhreyfingarinnar og hvar er árangur verkalýðsbaráttunnar? Af hverju er almennur aðgangur að menntun og sjálfsögð heilbrigðisþjónusta aftur orðið baráttumál.  Af hverju stefna lífskjör almenns launafólk afturábak síðustu ár eftir áratuga framfarir.

Verkalýðsbarátta hefur ekki verið í tísku lengi en síðustu misseri er eins og fólk hafi vaknað og það hafa verið átök í nokkrum félögum og þar kosið um formenn. Það er af hinu góða.  Það er jákvætt að fólk skuli aftur hafa áttað sig á því að starfssemi verkalýðsfélaga skiptir máli.

En um nokkurt árabil þurfti að draga fólk nánast nauðugt til starfa fyrir verkalýðsfélögin. Það vildi enginn vera trúnaðarmaður og það vildu fáir sitja í stjórnum félaga og það var ekki líklegt til almennra vinsælda að vera formaður verkalýðsfélags. Það hefur breyst og nú sækist fólk aftur að komast til forystu í hreyfingunni. Það er gott.

Síðustu ár hafa stjórnmálin fundið áhugaleysi almennings á verkalýðsbaráttu og gengið á lagið. Skattbyrðin hefur verið flutt frá hálaunafólki og eignafólki yfir á láglaunafólk. Heilbrigðiskerfið hefur verið holað að innan og innviðir landsins grotna niður í hirðuleysi og umkomuleysi. Þannig fjármagna menn glæsibílana sína.

Vissulega hefur skattbyrði okkar allra vaxið eitthvað – en fyrir hálaunahópa hefur skattbyrðin hækkað um kannski 5 prósentustig á síðustu 20 árum.  Skattbyrði láglaunafólks þegar litið er til skerðinga barnabóta og vaxtabóta hefur hækkað um allt að 30-50 prósentustig  á sama tíma.

Ef við lítum á hvernig þetta yrði í raun – þá getum við ímyndað okkur par með 2 börn sem er að reyna að koma sér upp húsnæði.  Ef þetta par er á lágmarkslaunum vantar um 100.000 kr. í umslagið hjá þeim um hver mánaðarmót af þeim launahækkunum sem samið hefur verið um. Stjórnvöld hafa tekið þessa fjárhæð. Hálaunaparið fær sín laun nánast óskert.

Þannig hefur skattbyrðin verið flutt á tekjulægri hópa.

Að deila og drottna er gamalkunn stjórnunaraðferð.  Með því að etja mismunandi hópum saman og láta þá taka slaginn – tekst auðvaldinu að koma peningum undan í friði.

Þannig ýtir auðvaldið endalaust undir skefjalausa gagnrýni á Alþýðusamband Íslands og nærist eins og púkinn á fjósbitanum. Á meðan verkalýðshreyfingin tekst á innbyrðis – hlæja auðmennirnir alla leið í bankann.

Því miður er það svo að fátækasti hluti þjóðarinnar hefur ekki átt jafn fáa málsvara og afllitla í langan tíma. Þingmenn tala kannski um fátækt – en engar af aðgerðum þeirra miða að því að eyða fátæktinni. Stjórnmálamenn tala fagurt en það þurfti Alþýðusambandið til að ýta af stað fyrsta alvöru átaki í húsnæðismálum fátæks fólks síðan Breiðholtið byggðist og það var einnig að frumkvæði og fyrir kröfu verkalýðsfélaganna.

Þegar verkalýðshreyfingin vann stóru sigrana var meginþorri þjóðarinnar fátækur. Stóru hóparnir í Alþýðusambandinu voru verkafólk og sjómenn. Fólk hafði allt að vinna og litlu að tapa. Og það vann stóra sigra. Við tryggðum okkur veikindarétt, orlofsrétt og rétt til atvinnuleysistrygginga. En það var ekki ókeypis. 

Eftir harðvítugt sex vikna verkfall árið 1955 náðist sigur á ýmsum sviðum verkalýðsbaráttunnar og atvinnuleysistryggingum var komið á. Þá var skrifað stóru letri á forsíðu Vinnunnar, blaðs ASÍ:

Sterk og sameinuð verkalýðssamtök höfðu varið rétt sinn með sæmd ok komu heil hildi frá.

Þannig fengust réttindi okkar og kjör – með átökum og fórnum. Við sem störfum fyrir hreyfinguna erum stundum gáttuð á því hvað fólk er lítt meðvitað um það hvernig réttindi okkar áunnust.

Það er stundum eins og fólk haldi að réttindi launafólks séu einhver náttúrulögmál og að góðir og göfugir launagreiðendur hafi ákveðið af sanngirni sinni að veita starfsfólki sínu kjarabætur og bætt lífskjör.

Raunin er önnur – öll þau réttindi sem kjarasamningar kveða á um eru dýru verði keypt.

Og barátta okkar var ekki bara um kaup og kjör og frídaga og veikindadaga heldur og kannski ekki síður um réttlátara og betra samfélag. Við náðum oft árangri í þeirri baráttu líka.

Nú horfum við hins vegar upp á vaxandi misskiptingu tekna og auðs í samfélaginu. Alþingismenn, embættismenn ríkisins og stjórnendur fyrirtækja taka launahækkanir langt umfram venjulegt launafólk og skattar eru lækkaðir á stóreignafólk. Á sama tíma taka stjórnvöld kaupmáttaraukninguna frá hinum lægst launuðu með skattahækkunum og skerðingum bóta.

Upphæð vaxtabóta í ár verður sú lægsta síðan vaxtabótakerfið var sett á fót. Í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar verða reiknireglur vaxtabóta þær sömu fram til ársins 2023 og viðmiðunarfjárhæðir vaxtabóta standur í stað að raungildi næstu árin.

Vaxtabætur halda áfram að dragast saman og þær hafa aldrei verið lægri að raunvirði.

Skattar á lágmarkslaun hafa hækkað úr því að vera 4% í það að vera 17% á síðustu 20 árum, eða með öðrum orðum, leiðrétting lægstu launa fer að mestu leyti beint í skattinn.

Persónuafsláttur ætti að vera um 80.000 krónur í dag – ef hann hefði fylgt verðlagi og enn hærri ef hann hefði fylgt launum. Skerðingar á persónuafslætti bitna harðast á láglaunafólki því þar munar mest um hverja krónu.  Lækkun á skattprósentu gagnast hins vegar mest þeim hæstlaunuðu því þar er hver prósenta þung í vasa.

Við getum endalaust barist fyrir „hækkun lægstu“ launa – og horft síðan á skattbyrði láglaunafólks hækka samfara.  Þetta er bara eins og að pissa í skóinn sinn – skammgóður vermir og á meðan spilum við beint í fangið á auðvaldinu.

Í raun er allt verkafólk að vera komið á einn og sama kauptaxtann því síðustu 11 ár hafa nánast allar launahækkanir verið krónutöluhækkanir og bil milli kauptaxta því alltaf að minnka. Fyrir 10 árum var munur á efsta og neðsta taxta Starfsgreinasambandsins 30% en í dag er þessi munur 13%.  Á þessum sömu árum hefur síðan skattbyrði lægstu launa hækkað og sjálfsagðar félagslegar jöfnunaraðgerðir á borð við barnabætur og vaxtabætur verið nánast þurrkaðar út.

Við höfum þannig náð prýðilegum árangri í að bæta laun þeirra lægst launuðu en á sama tíma hafa stjórnvöld farið um eins og þjófar að næturlagi og stolið öllum ávinningnum og síðan er efnt til rógsherferða gagnvart Alþýðusambandinu. Við kjósum svo alltaf aftur sömu höfðingjana til að stýra landi og þjóð. Púkinn á fjósbitanum er orðinn feitur.

Sterkari saman er yfirskrift dagsins – það er vísun til þess að þegar verkalýðshreyfingin hefur staðið saman þá er okkur allt mögulegt. Það gat kostað verkföll í jafnvel margar vikur að vinna mikilvæga sigra – en þeir sem fóru á undan okkur tóku þá slagi og oft unnu þau.  Við höfum hins vegar verið í nauðvörn síðustu ár – með áhugalitla félagsmenn og fjandsamleg stjórnvöld og síðast en ekki síst auðvald sem hefur náð þvílíkum tökum á landinu, fjölmiðlum og auðlindum. Þetta auðvald svífst einskis enda er verið að verja tugmilljarða hagsmuni.

Það má líka segja og gangast við því að mögulega héldum við að það gætu öll dýrin í skóginum verið vinir og að við næðum mestum árangri með samvinnu og sátt. Við skynjuðum það lengi  hjá okkar félagsmönnum að það var lítill áhugi á átökum og óðaverðbólgan á níunda áratug síðustu aldar hræddi og var hvatning fyrir því að ná árangri með hóflegum aðgerðum.

Reynslan sýnir hins vegar að öll sátt af okkar hálfu verður til þess að okkar kjör eru fundin út frá lægsta mögulega samnefnara.  Aðrir leggja lítt af mörkum og allra síst auðvaldið.

Þannig hafa Alþýðusambandsfélögin leitt enduruppbyggingu samfélagsins frá því að fjármálakerfið hrundi með braki 2008 – við höfum aftur og aftur samið þannig að láglaunahóparnir væru í forgrunni og það hefur kostað átök innan hreyfingarinnar og m.a. hafa iðnaðarmenn og aðrir tekjuhærri hópar gengið í þennan slag með okkur.

Nú er atvinnulífið öflugt og góður hagvöxtur og þá fara þeir af stað sem ekkert hafa til lagt. Nú eru aftur ofurbónusar og ofurlaun. En svo vara þeir við að atvinnulífið þoli ekki miklar kauphækkanir.

Samfélagið sem við búum við í dag er ekki gott samfélag. Það er fullt af reiði og beiskju. Þetta er samfélag þar sem fólk þarf að neita sér um nauðþurftir á meðan aðrir vita ekki aura sinna tal. Þetta er samfélag þar sem alvarleg veikindi eða jafnvel bara meðganga – getur sett fjárhag fjölskyldunnar á hliðina. Þetta er ekki gott samfélag.

En það getur orðið gott og það er hlutverk verkalýðshreyfingarinnar að beina því á þá braut.

Í aðdraganda síðustu kosninga setti Alþýðusambandið fram samfélagssáttmála um félagslegan stöðugleika og skoraði á framboðin gera hann að sínum. Ákallið um félagslegan stöðugleika verður sífellt hærra meðal launafólks, því stjórnmál snúast ekki bara um efnahagslegan stöðugleika.

Ákallið snýst um …

  • Öflugt heilbrigðiskerfi fyrir alla
  • Öruggt húsnæði á viðráðanlegum kjörum
  • Ábyrgan vinnumarkað
  • Velferð á vinnumarkaði
  • Tekjuöflun með réttlátu skattkerfi

Alþýðusambandið vill samfélag jafnréttis og jafnra tækifæra þar sem öllum er tryggð mannsæmandi afkoma og réttur til heilbrigðisþjónustu, menntunar og velferðar.

Launafólk verður að geta treyst því að stjórnvöld forgangsraði í þágu velferðar og tryggi í það fjármagn með réttlátu skattkerfi sem dreifir byrðunum. Um þetta þarf að ríkja breið sátt og skilningur milli stjórnmálanna og vinnumarkaðarins. Það er þetta sem við köllum félagslegan stöðugleika.

Við höfnuðum því að sitja á þjóðhagsráði því við sjáum ekki að það sé grundvöllur fyrir breiða sátt allra hópa um uppbyggingu samfélagsins fyrr en að það er búið að rétta hlut okkar. Það þarf að flytja skattbyrðina aftur á þá sem geta borgað skatta og við þurfum að lagfæra okkar launatöflur aftur þannig að félagsmenn okkar geti sótt sér kjarabætur með aukinni ábyrgð og með aukinni færni.

Það getur ekki verið markmið okkar að allt verkafólk á Íslandi sé allt á nánast sama taxta. Munur á efsta og lægsta taxta er í dag aðeins um 13% og það er þá svigrúmið sem við höfum til að bæta kjör okkar með því að takast á hendur erfiðari og ábyrgðameiri verkefni eða afla okkur aukinnar færni.

Hækkun lægstu launa er slagorð sem hljómar vel – en það er ekki bara lægst launaða fólkið sem vill kjarabætur og við verðum að gæta að hagsmunum allra okkar félagsmanna.  Það er lágmarkskrafa okkar núna að stjórnvöld hætti að stela kjarabótum af tekjulægstu hópunum þannig að samstaða hreyfingarinnar og barátta síðustu ára skili sér til þessara hópa.

Áframhaldandi hækkanir lægstu taxta á kostnað efri flokkanna munu einungis þjappa launatöxtum okkar fólks enn meira saman og að lokum verður allt verkafólk á sama taxta – og þar eins og annars staðar verður farið eftir lægsta samnefnara.

Það verður aldrei sátt um það í okkar röðum og þetta er mál sem við verðum að hafa kjark til að takast á við og í næstu kjarasamningum er nauðsynlegt að við drögum stjórnvöld að borðinu hvort heldur það verður með góðu eða illu.  Stjórnvöld verða að skila aftur barnabótum og vaxtabótum og lækka skattbyrði tekjulægstu hópanna og við verðum að lagfæra launatöflurnar aftur þannig að fólk sjái sér fært að bæta kjör sín með því að takast á við erfiðari verkefni.

Ef við gerum þetta ekki – þá erum við að spila eftir reglum auðvaldsins og efla láglaunastefnuna.

Í næstu kjarasamningum verðum við að ná vopnum okkar og ná að koma böndum á fjármálaelítuna og vinna að hagsmunum allra okkar félagsmanna. 

Sem betur fer eru flestir félagsmanna okkar ekki á lægstu töxtum og meðallaun á okkar félagssvæði eru milli 5 og 6 hundruð þúsund krónur á mánuði – með yfirvinnu og vaktaálögum.

Við þurfum að fara í næstu kjarasamninga með hagsmuni félagsmanna okkar að leiðarljósi og ekki láta reka okkur enn og aftur í rétt láglaunastefnu stjórnvalda.

Við getum allt ef við stöndum saman.

Verkalýðshreyfingin á Íslandi varð til í lok 19. aldar þegar verkafólk hóf að skipuleggja sig í stéttarfélög. Það áttaði sig á aflinu sem bjó í fjöldanum og samstöðunni og gerði hvað það gat til að virkja það afl. Frá þeim tíma hefur sameinuð verkalýðshreyfing barist fyrir réttindum og kjörum launafólks á Íslandi með þeim árangri að óvíða í heiminum er staða fólks á vinnumarkaði sterkari en hér. Þar leikur samstaðan lykilhlutverk.

Það er ekki bara við gerð kjarasamninga sem við stöndum í baráttu. Það er dagleg barátta við að halda áunnum réttindum launafólks, sem þekkir ekki rétt sinn nógu vel og jafnvel ganga sumir vinnuveitendur svo langt að greiða bara alls engin laun fyrir vinnu þótt hún sé unnin í efnahagslegum tilgangi, en sjálfboðavinna virðist eiga upp á pallborðið hjá sumum fyrirtækjum; sjálfboðaliðar sem koma hingað erlendis frá og þekkja ekki okkar umhverfi. Lágkúra vinnuveitenda sem nýta sér þekkingarleysi saklausra ungmanna virðist ekki eiga sér nein takmörk. Þetta eru aðilar sem vilja allt þiggja og allt hirða en lítið leggja af mörkum í staðinn. Gróðinn er alltaf einkavæddur en kostnaðinum velt yfir á samfélagið og m.a. þess vegna er láglaunafólk skattlagt sem aldrei fyrr í lýðveldissögunni.

Það er heldur ekki lögbrot á Íslandi að stela frá launafólki- að minnsta kosti ekki ef þjófurinn er launagreiðandinn - refsingin verður í besta falli aldrei önnur að þurfa að greiða rétt laun.

Það er verk að vinna fyrir samhenta og samstæða verkalýðshreyfingu.  Við höfum vopnin og við höfum aflið ef við stöndum saman.

En stöndum við saman?  Því miður virðist stefna í sundrungu og sundurlyndi. Framundan eru kjarasamningaviðræður og stefnir í harðvítug átök.  Það er mikil reiði í samfélaginu og stanslausar fréttir af sjálftöku og spillingu kynda undir.  Launafólk er komið með upp í kok af misskiptingu og  græðgi í samfélaginu.

Því miður er einnig kynt undir sundurlyndi innan verkalýðshreyfingarinnar og þar þeysa lukkuriddarar um sviðið – fólk sem við höfum aldrei séð í baráttunni með okkur en telur sig nú hafa öll svörin.  Guð láti gott á vita.

Við náum aðeins árangri ef við stöndum saman og sundurlyndi í okkar röðum er aðeins til að gleðja auðvaldið. Þannig kynda auðvaldsmiðlar og leigupennar stanslaust undir ágreiningi innan okkar raða og vonast til að hreyfingin fari fram í komandi kjarasamningum sundruð og í ágreiningi.

Það er okkar – sem höfum valist til forystu í félögunum að ná sáttum innan hreyfingarinnar. Við verðum að muna að það eru engir einstaklingar stærri en Alþýðusamband Íslands og hvað sem rógsherferðum auðvaldsins og leigupennum þeirra líður – þá er það Alþýðusambandið sem hefur leitt allar félagslegar umbætur á landinu og allar kjarabætur almennings síðustu hundrað ár.

Þannig verður það áfram og við í AFLi munum leggja okkar á vogarskálarnar til þess að full samstaða myndist innan Alþýðusambandsins og að við förum sameinuð í næstu kjarasamninga.

En það þurfa að verða breytingar og það róttækar breytingar.  Næstu kjarasamningar verða mikilvægir og munu sennilega ráða úrslitum um framtíð Alþýðusambandsins og stöðu verkalýðshreyfingarinnar á landinu. 

Ef það er stríð sem stjórnvöld vilja – þá fá þau stríð.

einn rettur logo 002            VIRK starfsendurhæfingasjóður     vertuaverdi