AFL starfsgreinafélag

Til góðra verka

 

AFL starfsgreinafélag AFL starfsgreinafélag AFL starfsgreinafélag AFL starfsgreinafélag AFL starfsgreinafélag AFL starfsgreinafélag AFL starfsgreinafélag

Ofurseld græðginni: Brjóta lög og samninga?

AFL Starfsgreinafélag hefur fyrir hönd Lettneskra félagsmanna sinna kært GT verktaka til lögreglu og hafið undirbúning innheimtumála vegna 13 starfsmanna fyrirtækisins. Ásakanir starfsmannanna á hendur fyrirtækinu eru þær alvarlegustu sem AFL hefur fjallað um og fela í sér ásakanir um þvinganir og tilbúin skjöl til að fela brot á kjarasamningum. Hér á eftir fer yfirlýsing formanns AFLs og framkvæmdastjóra vegna málsins.

Egilsstöðum 5. okt. 2007
 
EFNI: Málefni Lettneskra starfsmanna GT verktaka á Kárahnjúkasvæði
6. september sl.  gerði  Vinnumálastofnun samkomulag við Arnarfell um málefni erlendra verkamanna er störfuðu hjá undirverktökum Arnarfells – þ.m.t. GT verktaka. Stjórn AFLs mótmælti þessum samningi og taldi ekki ástæðu til að veita þessum fyrirtækjum lengri fresti til að koma málum sínum í lag en þegar var orðið.

Nú er að koma í ljós að svo virðist sem GT verktakar hafi nýtt tímann til að flytja starfsmenn sína yfir á launaskrá Nordic Construction sem virðist vera skúffufyrirtæki þeirra GT manna – þ.e. þeir eru sjálfir umboðsmenn Nordic Construction hér á landi – og fyrirtækið virðist í þeirra eigu.

Ennfremur virðist sem starfsmenn hafi með þvingunum, samkvæmt skýrslum þeirra til Vinnumálastofnunar, AFLs og lögreglu, verið látnir undirrita ráðningarsamninga sem ekki voru í samhengi við launagreiðslur til þeirra og jafnframt látnir kvitta fyrir móttöku launa sem þeir fengu aldrei.
Þessar ásakanir mannanna eru studdar samhljóða framburði þeirra allra og öðrum gögnum sem ekki verða opinberuð að sinni.
Þessi meintu brot fyrirtækis eru með þeim grófari sem við höfum orðið vitni að í samskiptum fyrirtækja við erlent starfsfólk og þau grófustu þegar litið er til þess að þetta virðist hafa verið gert að yfirveguðu ráði og skipulega.

Að okkar mati má skipta þessum brotum í nokkra flokka – ef sönn reynast.
1. Logið að stjórnvaldi ( Vinnumálastofnun) og þau blekkt til veita frest í góðri trú.
2. Virkjanasamningur (samningur um lágmarkskjör) brotinn.
3. Allmörg ákvæði laga um stéttarfélög og vinnudeilur brotin.
4. Skjöl útbúin til fela ofangreind brot og þeim framvísað til Vinnumálastofnunar.
5. Starfsmenn beittir þvingunum og hótunum um atvinnuleysi – þar með færir fyrirtækið sér í nyt bág kjör þeirra og erfitt efnahagsástand heimalands þeirra.

Þetta eru alvarlegar ásakanir en við byggjum þær á skýrslum mannanna og öðrum gögnum.

Viðbrögð forsvarsmanna GT eru lítilmannleg – þeir bera fyrir sig „æru“ einhverra ónafngreindra starfsmanna launadeildar fyrirtækisins – sem enginn hefur ásakað um eitt eða neitt. Þeir bera á mennina að þeir segi ósatt og flagga undirskriftum þeirra sem þeir veittu nauðugir.  (Hvers vegna tók fyrirtækið allt í einu upp á því að greiða laun í reiðufé ?)

Þeir segjast íhuga beiðni um opinbera rannsókn á málinu vegna ærumeiðinga. Þar erum við reyndar sammála GT mönnum – við myndum fagna opinberri rannsókn.

Það er ljóst af samningi þeim sem Arnarfell gerði við VMST að það verður Arnarfell sem situr uppi með reikninginn. Arnarfell gekkst í ábyrgð fyrir samstarfsaðila sinn og undirverktaka og sú ábyrgð verður nú sótt.

Næstu skref AFLs Starfsgreinafélags verða – og lögmaður félagsins hefur þegar sent erindi til GT og Arnarfells vegna þeirra.
1. Krefjast allra launaseðla og tímaskýrslna vegna mannanna.
2. Krefjast flugmiða sem mennirnir eiga rétt á samkvæmt ráðningarsamingum, vegna heimferðar.
3. Fara fram á að vitnaleiðslur fyrir dómi getir farið fram hið fyrsta svo mennirnir geti haldið til síns heima.
4. Lýsa ábyrgð á kostnaði vegna uppihalds mannanna og ferða, svo og túlkakostnaði og öðrum þeim kostnaði sem þeir sjálfir eða félagið verður fyrir, á hendur þessum fyrirtækjum. Jafnframt að allur kostnaður verði innheimtur við lok málsins.
5. Að fengnum gögnum frá fyrirtækjunum verða launakröfur reiknaðar og hafin innheimta þeirra. Skili fyrirtækin ekki launaseðlum og tímaskýrslum, verða launakröfur áætlaðar og byggt á skýrslum starfsmannanna.

Yfirlýsingar forsvarsmanna GT verktaka eru ekki svaraverðar og verður ekki eytt fleiri orðum á þá menn.

Þetta mál sýnir hins vegar og sannar enn frekar þörf á virku eftirliti með fyrirtækjum sem hyggja á skyndigróða með misnotkun á erlendu launafólki. Þessi fyrirtæki grafa undan velferðarkerfi þjóðarinnar og lífskjörum launafólks hér á landi – svífast einskis til að hagnast.  Fyrirtæki sem stunda félagsleg undirboð eru mein á þjóðfélaginu, hirða og hirða en leggja ekkert af mörkum – eru ofurseld gróðafíkn og græðgi og skaða allt og alla sem nálægt þeim koma.

Vonandi kynna stjórnvöld og þingmenn sér vel þetta mál og lagfæra löggjöf og eftirlit og rýmka heimildir Vinnumálastofnunar til að grípa til aðgerða. Vonandi sýna yfirvöld og dómstólar í þessu máli að þau eru til að vernda lög og rétt í landinu og verja lífskjör almennings og láta ekki málalengingar tefja fyrir afgreiðslu og beita refsiheimildum að fullu verði færðar sönnur á meint brot. 

Hjördís Þóra Sigurþórsdóttir                Sverrir Albertsson
Formaður AFLs                                  framkvæmdastjóri AFLs

einn rettur logo 002            VIRK starfsendurhæfingasjóður     vertuaverdi