AFL starfsgreinafélag

Til góðra verka

AFL starfsgreinafélag AFL starfsgreinafélag AFL starfsgreinafélag AFL starfsgreinafélag AFL starfsgreinafélag AFL starfsgreinafélag AFL starfsgreinafélag AFL starfsgreinafélag

"Munum sýna auðmýkt" - AFL skoðar veraldarvefinn

thumb_uco24Svissneski bankinn UBS tilkynnti um 2000 uppsagnir í gær og hefur þá alls sagt upp 6000 starfsmönnum á einu ári. Bankinn hefur tapað 42 milljörðum dollara í þessari lánakrísu. Stjórnarformaðurinn hét því á blaðamannafundi í gær að yfirstjórn bankans myndi leggja hart að sér og auðsýna auðmýkt. (af vef BBC í dag)  Beðið er sambærilegra yfirlýsinga Íslenskra bankamanna.

Flutningur fjármagns lífeyrissjóðanna, stórfellt erlent lán,  aukning veiðiheimilda, umsókn í EB, endurskoðun kjarasamninga. Þetta er meðal þeirra leiða sem að sögn eru kannaðar í dag en samkvæmt svartsýnistu þjóðfélagsrýnum blasir lítið annað við en efnahagslegt hrun á morgun, mánudag, verði ekkert að gert í dag.

Þegar litið er yfir heimasíður og bloggsíður síðustu sólarhringana kemur í ljós að almenningur er almennt hlynntur því að lífeyrissjóðirnir flytji eignir sínar til landsins ef það má verða til að koma í veg fyrir efnahagslegt hrun. Á hinn bóginn eru þær raddir einnig háværar sem óttast að með því verði fé lífeyrissjóðanna sóað í vonlausa tilraun við að spyrna við því hruni sem margir álíta að blasi við.

Guðmundur Gunnarsson, bloggar á eyjan.is, og fjallar þar m.a. um þau skilyrði sem verkalýðshreyfingin ætti að setja þessa klukkutímana.:

Gerð er krafa um að þessir fjármunir fari ekki þráðbeint í hítina sem Seðlabankinn setti okkur í með því að kvitta upp á að íslendingar gengu í ábyrgð fyrir öllum skuldum Glitnis. Við það féll vitanlega tryggingarálag okkar í 5000 punkta!! Um er að ræða sparnað launþega og stjórnvöld geta ekki spilað með hann eins einhverja skiptimynt og einhverjum skyndilausnum líðandi stundar.

Ef litið er til annara foringja innan verkalýðshreyfingarinnar beinir Verkalýðsfélag Vestfirðinga og heimasíða SGS athygli að þátt "spákaupmanna" innan bankakerfisins:

ETUC-yfirlýsingin kveður sterkt að orði um Casíno kapítalismann og fullyrðir að núverandi fjármálakrísa eigi rætur í græðgi og glannaskap í Wall Street, London og öðrum lykil fjármálamörkum. Spákaupmennska hafi í miklum mæli verið leiðandi í illa grunduðum fjárfestingum. Spákaupmennska hafi aukið enn frekar á olíuhækkanir, hækkanir á matvörum og hráefni. Spákaupmennska fyrir stundargróða sem bitnar á öllum almenningi, launþegum og heilbrigðu atvinnulífi, þegar upp er staðið.
Það skyldi þó ekki vera að þessi lýsing ETUC um spákaupmennskuna eigi einnig við hér hjá okkur, um okkar fjárhættu kapítalista?

Í þessum anda eru uppi háværar raddir meðal almennings um að yfirstjórnendur bankanna verði látnir axla ábyrgð. Upprifjun frétta af kaupaukasamningum, einkaþotum og öðru hömlulausu bruðli "bankastrákanna" eins og þeir eru gjarna kallaðir meðal almennings í dag, er eins tuska í andlit fólks sem hefur tapað aleigunni síðustu dægur með hruni hlutabréfa og tvöföldun gengistryggðra lána.

Af hverju gerði ríkisstjórnin ekki líka kröfu um að þeir sem hafa fengið gjaldeyririnn okkar að láni komi með þá til baka og endurgreiði erlendu lánin, og séu neyddir til að taka íslenskt lán eins og eigendur lífeyrissjóðanna? Hefur Seðlabankinn kannað hvar arðurinn er niðurkominn, sem eigendur stórra fyrirtækja hafa sér greitt út? Er búið að koma honum fyrir í áhættulausri höfn erlendis? Af hverju eru stærstu eigendur bankanna ekki látnir koma heim með komi inn með peninga, sem þeir eru búnir að færa frá landinu í formi framvirkra samninga á móti krónunni. Þ.e. veðjað á að hún myndi veikjast? Af hverju hefur Seðlabankinn ekki kannað hvort eitthvað sé hæft í því að það séu sjóðir íslendinga sem eru nýttir til þess að taka stöðu gegn krónunni? (Guðmundur Gunnarsson)

Verkalýðsfélag Akraness tekur undir þessi sjónarmið á heimasíðu sinni í dag en fer einnig fram á snaraukinn kvóta á þorsk.

Einnig á að auka tafarlaust aflaheimildir í þorski um 50 – 100 þúsund tonn til að skapa hér auknar útflutningstekjur enda er bullandi ágreiningur um þá ráðgjöf sem Hafrannsóknarstofnun hefur gefið á undanförnum árum.

Eining Iðja á Akureyri fjallar á heimasíðu sinni um mögulega aðild að EB og upptöku Evru en flestar aðrar heimasíður verkalýðshreyfingarinnar eru hljóðar þessa daga um erfitt efnahagsástand.

Í ljósi komandi kjarasamninga við ýmsa hópa, þar sem starfsmenn sveitarfélaganna eru fjölmennastur, og endurskoðunar launaliða samninga eftir áramót, er talið líklegt að kallað verði eftir sátt við aðila vinnumarkaðarins og eftir "ábyrgum kjarasamningum". Vilhjálmur Birgisson, formaður Vlf. Akraness gerir "ábyrga" kjarasamninga að umfjöllunarefni á heimasíðu félagsins:

Rétt er að minna á framlag verkafólks til að viðhalda stöðugleika í þessu landi en kjarasamningar sem gerðir voru bæði 2004 og 17. febrúar sl. byggðust á hóflegum hækkunum með það að markmiði að skapa hér stöðugleika og auka kaupmátt verkafólks. Þegar gengið var frá kjarasamningum þann 17. febrúar var verðbólgan í 5,7% en nú einungis átta mánuðum síðan er verðbólgan 14 % og bullandi kjaraskerðing dynur á okkar fólki og miklar hækkanir á greiðslubyrði skuldsettra fjölskyldna. Á forsendu þess að hafa gengið frá hóflegum og  skynsamlegum samningum er grátlegt fyrir verkafólk að horfa upp á þá stöðu sem nú blasir við í íslensku samfélagi.

 

Pistilhöfundur heimasíðu AFLs telur alla almenna skynsemi kalla eftir víðtæku samráði í dag og nauðsyn þess að öll öfl þjóðfélagsins leggi sitt af mörkum til að koma á efnahagslegum stöðugleika. Hrun efnahags-og fjármálakerfisins hefur í för með sér skelfilegar afleiðingar fyrir almenning í landinu.

Á hinn bóginn bendir pistilhöfundur á að ef litið er til reynslunnar bitna aðgerðir er fela í sér "ábyrgar"(lesist litlar) kauphækkanir, fyrst of fremst á taxtavinnufólki á landsbyggðinni. Jafnvel eftir að birta fer og launaskrið tekur við á höfuðborgarsvæðinu, situr fiskvinnslufólk, starfsmenn þjónustu og stóriðju og fleiri stórir hópar á landsbyggðinni, fast á sínum "ábyrgu töxtum".

Ennfremur má benda á þá staðreynd að stórfelldur eignatilflutningur hefur átt sér stað síðustu daga. Jafnvel þó svo að gripið verði til aðgerða í dag og þær takist vel, blasir gjaldþrot við fjölda heimila og fyrirtækja. Slíkum stórfelldum hremmingum fylgja síðan mannlegir harmleikir, upplausn fjölskyldna og sjálfsvíg.

Það hlýtur að vera eðlileg krafa almennings í landinu sem verður að færa gífurlegar fórnir næstu misserin, að samhliða aðstoð ríkisvaldsins við fjármálakerfið, að launaaukar stjórnenda verði þurrkaðir út í dag, að ofurlaunin verði færð niður og öllum slíkum samningum rift samstundis. Við hljótum að gera þá kröfu til bankastjóra og stjórnarformanna að þeir bjóðist sjálfir til að rifta launahluta ráðningasamninga sinna - þannig væri möguleg unnt að skapa samstöðu meðal þjóðarinnar.

Það var rituð fræg bók um sigurgöngu rússneska hersins um þýsk héruð. Sú bók hét "Réttæti - ekki hefnd." Íslenskur almenningur gerir sömu kröfu gagnvart ráðamönnum bankakerfisins. Íslenskur almenningur gerir einnig þá kröfu að sett verði upp rannsóknarnefnd með víðtæk völd til að rannsaka öll gjardeyris og hlutabréfaviðskipti síðustu missera. Við viljum réttlæti en ekki hefnd. En réttlæti viljum við.

 

Vitnað var til

 

BBC

Guðmundar Gunnarssonar, RSÍ.

Verkalýðsfélags Vestfirðinga

Verkalýðsfélags Akraness

Starfsgreinasambands Íslands