AFL starfsgreinafélag

Til góðra verka

AFL starfsgreinafélag AFL starfsgreinafélag AFL starfsgreinafélag AFL starfsgreinafélag AFL starfsgreinafélag AFL starfsgreinafélag AFL starfsgreinafélag AFL starfsgreinafélag

Engin sátt án skilyrða

Á stjórnarfundi AFLs Starfsgreinafélags sem var að ljúka, var samþykkt að félagið legði eftirfarandi tillögu fyrir ársfund Alþýðusambands Íslands sem hefst á morgun. Tillagan verður lögð fram undir liðnum efnahagsmál:

"Ársfundur Alþýðusambands Íslands samþykkir að fela forseta og miðstjórn ASÍ að undirbúa aðkomu verkalýðshreyfingarinnar að því uppbyggingastarfi Íslensks efnahags-og atvinnulífs sem við blasir með því að skilgreina samningsmarkmið í samvinnu við aðildarsambönd- og félög Alþýðusambandsins.

 Ársfundur Alþýðusambands Íslands 2008 lýsir því yfir  við stjórnvöld, Samtök Atvinnulífsins og fjármálakerfi landsins, að aðkoma alþýðufólks að „sátt á vinnumarkaði“ og framlög launafólks  til uppbyggingar verður ekki án skilyrða:

1)            Alþýðusamband Íslands varar við hættu á stóraukinni misskiptingu í þjóðfélaginu þar sem þeir sem ráða yfir fjármagni notfæri sér neyð hinna efnaminni.  Tryggja verður ráðgjöf og aðstoð til láglaunafólks er verður fyrir áföllum í yfirstandandi efnahagshörmungum. Alþýðusambandið krefst þess að settur verði á laggirnar sérstakur starfshópur aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda og sveitastjórna er skili áliti áður en endurskoðun kjarasamninga hefst – um til hvaða leiða er unnt að grípa til að hamla gegn vaxandi fátækt og afleiðingum hennar.

2)            Alþýðusamband Íslands telur hættu á auknum félagslegum vandamálum og vaxandi fátækt.. Alþýðusambandið krefst þess að  stjórnvöld grípi til sérstakra aðgerða til að tryggja  sérstaklega hagsmuni barna og að börn fái notið dagvistunar og tómstundastarfs án tillits til tekna foreldra.

3)            Alþýðusamband Íslands varar við skólagjöldum á framhaldsskóla- og háskólastigi og bendir á að það geti orðið til þess að ungt fólk frá efnaminni heimilum hrökklist úr námi. Alþýðusambandið ítrekar að réttur til náms er ekki forréttindi auðugra fjölskyldna heldur allra þegna landsins. Alþýðusambandið krefst þess að jafn réttur til náms án tillits til efnahags verði tryggður.

4)            Alþýðusamband Íslands ítrekar að hrun efnahagskerfisins er m.a. vegna stjórnleysis og brenglaðs verðmætamats í fjármálakerfi landsins. Til að forðast að álíka byrðum verði velt yfir á launafólk í framtíðinni krefst Alþýðusambandið siðvæðingar í fjármála-og efnhagsstofnunum landsins. Alþýðusambandið krefst þess að neytendavernd verði aukin svo og heimild opinberra eftirlitsstofnana til inngripa verði stóraukin, hvort heldur er vegna fjármálafyrirtækja eða annarra fyrirtækja á almennum markaði.

5)            Ársfundur Alþýðusambandsins krefst þess að áður en rekstur eða þjónusta í umsjón hins opinbera verður á ný settur á hendur einkaaðila, verði lokið fullnaðar uppgjöri við yfirstandandi hrun fjármálamarkaða og greiningu á orsökum hrunsins og afleiðingum þess. Þá fyrst verði til umræðu að bjóða út þjónustu eða selja opinberar stofnanir eða fyrirtæki til einkaaðila.

6)            Ársfundur Alþýðusambands Íslands 2008 krefst þess að óháður aðili, utan fjármálaeftirlits, seðlabanka eða stjórnvalda, verði fenginn til að framkvæma ýtarlega rannsókn á atburðum liðinna vikna í fjármálakerfi landsins og aðdraganda þeirra. Umræddri rannsókn verði gefið vald til yfirheyrslna, húsleita og annarra rannsóknarúrræða er lögregluyfirvöldum eru tryggð. Jafnframt verði tryggt að einstaklingar, fyrirtæki og stofnanir verði kölluð til ábyrgðar vegna þess tjóns sem unnið hefur verið á íslensku samfélagi."