AFL starfsgreinafélag

Ræða Sverris Albertssonar á aðalfundi Stapa 2018

StapiÞað hafa fá kerfi verið eins undir í umræðunni á Íslandi síðustu ár eins og lífeyrissjóðakerfið og það er að vonum.  Íslenskir lífeyrissjóðir eiga í dag um fjögur þúsund milljarða og leika lykilhlutverk í íslensku samfélagi.

Án þess að ætla að vera væminn eða fara í mikla söguskoðun vil ég samt minna á að við upphaf verkalýðsbaráttu á Íslandi fyrir röskum 100 árum bjó þorri þjóðarinnar í ömurlegu húsnæði, vannæring og barnadauði voru hluti tilverunnar og alþýða fólks var örsnauð.  Nú eiga afkomendur þessarar sömu alþýðu þúsundir milljarða í sparifé og geta verið í lykilhlutverki í atvinnulífinu.

Sú gagnrýni sem lífeyrissjóðir hafa orðið fyrir á liðnum árum er að sumu leyti réttmæt en stundum óréttlát og byggð á fordómum og vanþekkingu.  Við skulum ekki vera í neinum vafa um það að við eigum fjölda óvina – allir sem fara með mikil völd og mikla fjármuni eiga sér óvildarmenn og öfundarmenn.

Það er ekki langt síðan fyrrverandi stjórnarformaður Granda hf lýsti því að lífeyrissjóðir væru nógu góðir til að fjárfesta í fyrirtæki hans en ættu að öðru leyti að halda kjafti.  Það er sjónarmið gömlu valdaklíkunnar – sem geta ekki þolað að samtök launafólks vilji skipta sér af því hvernig fyrirtækin eru rekin.

Fyrir síðasta efnahagshrun voru mögulega einhverjir lífeyrissjóðir of nátengdir einhverjum félaganna á verðbréfaþingi og það opnaði möguleika á hvers kyns ásökunum og tortryggni. Það er m.a. grunnur að gagnrýni sem við verðum enn fyrir.

Árin frá hruni hafa að verulegu leyti verið okkur hagfelld.  Fyrst eftir hrun olli staða krónunnar því að erlendar fjárfestingar skiluðu ávöxtun – og þá bæði með því að verðbréfamarkaðir erlendis styrktust eftir áföllin og því hversu krónan var slök.  Síðustu misseri hafa erlendar fjárfestingar verið að draga okkur niður með styrkingu krónunnar.

Hver raunveruleg rétt staða krónunnar er – er vandséð að ákveða. Við höfum á nokkrum árum farið frá því að vera ódýrt land fyrir ferðamenn og í að vera það dýrasta í heimi.

Þrátt fyrir að erlendar fjárfestingar hafi ekki skilað vænlegri ávöxtun síðustu ár – hef ég ekki áhyggjur af þeirri þróun og tel að við séum að fjárfesta til framtíðar þar og góð blanda af erlendum og innlendum fjárfestingum muni skila okkur tryggari ávöxtun til lengri tíma og nokkurri gjaldeyrisvörn.

En tilefni þess að ég kem hér upp er tvíþætt og tengjast bæði umfjöllunarefni mín stjórnarháttum.

Annars vegar vil ég fjalla um hlutverk lífeyrissjóða í atvinnulífinu og hins vegar um málefni stjórnar Stapa og stjórnarkjör.

Í hinum fullkomna heimi gætu lífeyrissjóðir verið að fjárfesta í fjölda hlutafélaga og verðbréfasafna þannig að eignarhluti í hverju félagi og safni væri aðeins einhver míkróprósenta.  Við gætum þá þvegið hendur okkar af öllu framferði fyrirtækja og vísað til þess að við ættum svo takmarkaðan hlut í hverju fyrirtæki. Ef okkur síðan litist ekki á framferði, viðskipti eða siðferði stjórnenda gætum við greitt atkvæði með fótunum – þ.e. selt hlut okkar.

En heimurinn er ekki fullkominn og verðbréfaþing Íslands er svo lítið og markaðurinn svo grunnur að þetta er ekki kostur lengur. Hluti lífeyrissjóða í viðskiptalífinu er of stór – við höfum ábyrgð og við verðum að axla hana.

Í umræðu um ofurlaun og bónusa í fyrirtækjum standa öll spjót á lífeyrissjóðum og ekki að ósekju – því eignarhluti lífeyrissjóðakerfisins í fjölda fyrirtækja á markaði er orðinn svo stór að við getum beinlínis tekið völdin í einstökum félögum ef okkur býður svo við að horfa.

Ég veit að fjöldi áhrifamanna í lífeyrissjóðakerfinu og innan verkalýðshreyfingarinnar er ekki sammála mér og telur að við eigum að vera „þöglir eigendur“ án afskipta.

Mín skoðun er sú að sá tími sé liðinn og það skip siglt.  Það er einfaldlega ekki í boði lengur og við eigum að beita eignarhluta okkar hvar sem við erum og það hvílir m.a. á okkur að „siðvæða“  viðskiptalífið.

Laun stjórnenda fyrirtækja hafa verið til umræðu og þá ekki síst hækkanir þeirra. Það er ekkert skrítið því bæði hafa laun einstakra stjórnenda svo og einstakar hækkanir verið algerlega úr takti við íslenskan raunveruleika.  Nú kunna menn að halda því fram að verið sé að greiða mönnum laun miðað við árangur þeirra og hæfileika og að við séum að keppa við alþjóðlegt rekstrarumhverfi.

Mín skoðun hefur alltaf verið að ég vil ekki verða til þess að hafa verðskulduð laun af nokkrum manni og ef mikil eftirspurn er eftir íslenskum stjórnendum erlendis – þá er bara að hvetja þá til að fara til þeirra starfa og auðgast þar.  En að það skuli vera metið sem eitthvað stórafrek að reka fyrirtæki sem hafa nánast einokunarstöðu á markaði skammlaust – það er bara rugl.

Lífeyrissjóðirnir þurfa að taka sig saman og snúa ofan af þessu bulli – vissulega á að launa farsæla stjórnendur vel en þegar laun stjórnenda sem reka einhverjar vegasjoppur eru orðin tíföld verkamannalaun – þá þarf að spyrna við fótum.  Fyrirtækin á verðbréfaþingi þurfa að skila launafólki aftur því sem tapaðist og skila lífeyrissjóðum aftur því sem tapaðist áður en stjórnendur fara að skipta á milli sín hagnaðinum.

Eigendastefna Stapa er góð svo langt sem hún nær – en við munum taka hana aftur upp á vinnufundi stjórnar í haust og vonandi herða enn á henni og auka kröfur til stjórnenda fyrirtækja þar sem við eigum einhvern hlut í fyrirtækjum.

Við eigum alls ekki að greiða atkvæði með fótunum – þá vinna gróðafíklarnir og fá að sitja áfram að kræsingunum – við eigum einfaldlega að krefjast okkar hluta af því sem til skiptanna.

Eignaraðild fylgir ábyrgð og launafólk – afkomendur þeirra sem bjuggu hér fyrir 100 árum í moldarkofum og áttu ekkert  - á nú orðið stóran hluta af sparifé í landinu. Við sem förum í forystu fyrir lífeyrissjóði eigum að axla þá ábyrgð sem eignunum fylgja og beita áhrifum okkar.

Ég er ekki með neina sérstaka tillögu til fundarins en vildi vekja athygli á þessari umræðu og fullvissa fundarmenn að stjórn Stapa er meðvituð um þessa umræðu í samfélaginu og hefur fjallað um þau viðhorf sem fram hafa komið.

Annað sem ég vil fá að eyða nokkrum orðum að með leyfi fundarstjóra því það lýtur ekki beint að þessum dagskrárlið – er sjálf stjórn Stapa.  Það er þannig að mitt líf hefur verið upp og niður og sjálfur hef ég ekki safnað auðæfum eða eignum.  Lífeyrissparnaður minn sem að stóru leyti er í Stapa er því mikilvægur partur af mínum framtíðarplönum.  Ég sóttist upphaflega ekki eftir stjórnarsæti hér – en var upphaflega valinn varamaður og gekk síðan upp í stjórn þegar þannig æxlaðist.

Ég álít það forréttindi og mikilvægt ábyrgðarhlutverk að sitja hér í stjórn og mér þykir miður þegar maður heyrir utan að sér að fólk sé dregið til stjórnarstarfa nánast nauðugt og einnig kvartanir yfir því að stjórnarfundir séu of langir og stjórnin of fjölmenn.

Stapi heldur utan um stóran hluta af mínum framtíðaráformum og ber ábyrgð á framtíð svo margra félaga okkar. Stjórnarseta hér á að vera forréttindi – þá á að vera heiður og það á að vera hlutverk sem fólk tekur alvarlega. 

Fólk ætti að sækjast eftir stjórnarsætum í sínum lífeyrissjóð og hafa skoðanir á starfssemi hans.  Það er hér sem við leggjum fyrir og það er hér sem við getum haft áhrif á mótun samfélagsins.

Ef fólki finnst það vera að gera okkur sjóðfélögum greiða með því að sitja í stjórn – þá sem sjóðsfélagi segi ég bara – ekki gera mér þann greiða.  Við finnum örugglega einhverja aðra sem hafa brennandi áhuga og vilja til að taka þetta sæti og axla þessa ábyrgð.