AFL starfsgreinafélag

Stefna

 Stefna ASÍ og AFLs

Mikilvægi þekkingar eykst stöðugt; fyrir einstaklinga – fyrirtæki og samfélagið – þekkingarsamfélagið. Uppbygging þekkingar eykur hæfni einstaklinga á vinnumarkaði og nýtist þannig þeim, atvinnulífinu og samfélaginu öllu. Menntun í atvinnulífinu er því sameiginlegt hagsmuna­mál og viðfangsefni samtaka launafólks og atvinnurekenda. Þar hafa stjórnvöld einnig skyldum að gegna.


Bætt menntun hefur að markmiði að veita einstaklingnum lífsfyllingu, efla sjálfstæði hans, auðvelda honum að takast á við viðfangsefni hins daglega lífs og að vera virkur þátttakandi í samfélaginu og þróun þess.


Samtök launafólks hafa á undanförnum árum lagt sífellt meiri áherslu á menntamál og vinna útfrá því að menntun er ævistarf – gerð er krafa um endurnýjun og viðhald þekkingar – símenntun. Mikilvægt er að samtök launafólks gæti hagsmuna félagsma nna sinna með því að taka virkan þátt í mótun og framkvæmd menntunar. Þá er einnig mikilvægt að Íslendingar taki virkan þátt í umræðu og samstarfi um menntamál á alþjóðavísu og hagnýti sér þá þekkingu og reynslu sem þar verður til. Mikilvægi tungumálakunnáttu Íslendinga verður stöðugt meira.


Á vettvangi verkalýðshreyfingarinnar hefur rík áhersla verið lögð á að efla samstarf samtaka launafólks, atvinnurekenda, fræðslustofnana og stjórnvalda við uppbyggingu og þróun símenntunar. Mikilvægt er að því starfi verði haldið áfram og það eflt enn frekar.

Verkalýðshreyfingin vill að litið sé á menntakerfið í heild þar sem áhersla er lögð á að tryggja öllum tækifæri til menntunar. Því verður að byggja upp öflugt og lifandi grunnmenntakerfi fyrir alla, þar sem ungt fólk hefur tækifæri til að búa sig undir líf og starf. Fullorðið fólk sem sækir formlegt nám þarf að fá reynslu og hæfni metna til styttingar á námi. Áhersla skal lögð á að ekki myndist blindgötur í skólakerfinu. Um leið verður að tryggja fólki sem komið er út á vinnumarkaðinn rétt og aðstæður til að sækja endur- og eftirmenntun til að styrkja sig í starfi eða auðvelda því að skipta um starf. Lögð skal áhersla á að fólki á vinnumarkaði standi til boða náms- og starfsráðgjöf.


Íslenskt samfélag verður stöðugt alþjóðlegra. Verkalýðshreyfingin leggur áherslu á að nýbúum hér á landi verði sköpuð skilyrði til að taka virkan þátt í íslensku samfélagi og á vinnumarkaði. Þar gegnir menntun lykilhlutverki.

Starf verkalýðshreyfingarinnar að menntamálum snýr einnig inn á við því nauðsynlegt er að efla stöðugt þekkingu og hæfni forystumanna og starfsmanna hennar til að leiða hana til áhrifa í samfélagi, þar sem þekking verður stöðugt mikilvægari.


 Áherslur ASÍ og AFLs:

  • ·Menntun í atvinnulífinu er sameiginlegt hagsmunamál og viðfangsefni launafólks og atvinnurekenda enda eykst mikilvægi hennar stöðugt, fyrir einstaklingana, fyrirtækin og samfélagið í heild.
  • ·Menntun er ævistarf – krafa um endurnýjun og viðhald þekkingar – símenntun.
  • ·Mikilvægt er að samtök launafólks taki virkan þátt í mótun og framkvæmd menntunar.
  • ·Leggja skal áherslu á að reynsla og hæfni sé metin til styttingar á námi.
  • ·Efla þarf félagsmálafræðslu og menntun til að auka þekkingu og hæfni forystumanna og starfsmanna verkalýðshreyfingarinnar.
  • ·Um leið og byggt er upp lifandi grunnmenntakerfi sem gefur öllu ungu fólki tækifæri til að búa sig undir líf og starf verður að tryggja fólki á vinnumarkaði rétt og aðstæður til að sækja sér endur- og eftirmenntun.
  • ·Tryggja þarf nýbúum á Íslandi skilyrði til að taka virkan þátt í íslensku samfélagi og vinnumarkaði. Leggja skal áherslu á að nýbúum standi til boða kennsla í íslensku og réttindum og skyldum á vinnumarkaði.

Helstu verkefni ASÍ og AFLs eru að:

  • ·Vera virkur þátttakandi í umræðunni í samfélaginu um mikilvægi menntunar og kynna sjónarmið samtaka launafólks.
  • ·Vera lifandi vettvangur fyrir skoðanaskipti stefnumótun og upplýsingamiðlun verklýðshreyfingarinnar um sameiginlega þætti menntamála og koma fram fyrir hönd aðildarsamtaka sinna gagnvart stjórnvöldum og samtökum atvinnurekenda í sameiginlegum málum.
  • ·Vera lifandi vettvangur þar sem aðildarsamtökin miðla af reynslu og þekkingu hvert til annars og samræma sjónarmið sín og aðgerðir.
  • ·Afla og miðla upplýsingum til aðildarfélaganna um stöðu og þróun menntamála á alþjóðavettvangi í gegnum alþjóðlega hreyfingu launafólks og í samstarfi við stjórnvöld, menntastofnanir og samtök atvinnurekenda.
  • ·Efla fræðslu og þjálfun þeirra sem gegna trúnaðarstörfum fyrir verkalýðshreyfinguna.
  • ·Að beita sér fyrir sérstökum aðgerðum stjórnvalda til að treysta stöðu fólks á vinnumarkaði með litla formlega menntun. – Ný tækifæri til náms.
  • ·Vinna að því að réttur launafólks til aðgangs að símenntun og tækifæri til að nýta sér hana verði tryggð.