AFL starfsgreinafélag

Hvað er undirverktaki?

Undirverktaki er bara annað nafn á verktaka – en verktaki er aðili sem tekur að sér verkefni fyrir mismunandi aðila – oft eftir útboð. Verktakinn er þá sjálfstæður lögaðili sem ber allar skyldur lögaðila – þ.m.t. að standa skil á opinberum gjöldum af starfssemi sinni.

Undirverktaki – er þá oftast aðili sem vinnur ekki beint fyrir hinn eiginlega verkkaupa – heldur tekur að sér ákveðna verkþætti í stærra verkefni og selur þá „aðalverktaka“ vinnu sína. En frá undirverktaka yfir í „gerviverktaka“ getur verið stutt bil.

Gerviverktaka er það þegar venjulegt launafólk tekur á sig skyldu verktaka í sinni daglegu vinnu. Gerviverktaki er sá sem sinnir að mestu vinnu fyrir einn verkkaupa, hefur aðstöðu hjá verkkaupa, er undir verkstjórn verkkaupa, notar verkfæri og tæki verkkaupa og er almennt í vinnu hjá verkkaupa – en er ekki á launaskrá.

Gerviverktakinn ber sjálfur ábyrgð á greiðslu tryggingagjalds og annarra opinberra gjalda – ber sjálfur ábyrgð á mótframlagi í lífeyrissjóð. Gerviverktakinn hefur ekki uppsagnarfrest, ekki rétt til launa í veikindum, fær ekki greidd orlofslaun né nýtur neinna þeirra réttinda sem almennir kjarasamningar tryggja launafólki. Verði verkkaupi gjaldþrota eru kröfur verktaka almennar kröfur – en ekki forgangskröfur eins og laun.

Skattayfirvöld áskilja sér rétt til að innheimta opinber gjöld hjá verkkaupa – sé sýnt að sambandið byggði á gerviverktöku.