AFL starfsgreinafélag

Til góðra verka

 

AFL starfsgreinafélag AFL starfsgreinafélag AFL starfsgreinafélag AFL starfsgreinafélag AFL starfsgreinafélag AFL starfsgreinafélag AFL starfsgreinafélag

Starfsgreinasamband Íslands 2007

thumb_sgs_logo Ályktun um kjaramál

Þing Starfsgreinsambands Íslands leggur áherslu á að í komandi kjarasamningum verði samið um launahækkanir sem tryggi launafólki kaupmáttaraukningu, og um leið verði hægt að koma á efnahagslegum stöðugleika.

Þing Starfsgreinasambands Íslands telur afar mikilvægt að stórbæta kjör þeirra sem lægst hafa launin. Slíkt þarf að gera með margþættum aðgerðum í þríhliða samkomulagi aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda. Leiðrétta þarf misréttið í samfélaginu og ná þarf sátt um að kaupmáttur lægstu launa hækki umtalsvert meira en annarra. Lækka þarf skattbyrgði lágtekjufólks samhliða því þarf að stórefla velferðarkerfið m.a. með því að hækka barnabætur, vaxtabætur og húsaleigubætur. Jafnframt því þurfa ríki og sveitarfélög að draga úr þjónustugjöldum.

Þing Starfsgreinasambands Íslands gerir þá kröfu að samfélagið allt sýni sömu ábyrgð og launafólk hefur verið krafið um. Sömuleiðis að hálauna og stóreignamenn raki ekki til sín öllum þeim verðmætum sem launafólk hefur skapað samfélaginu með vinnu sinni. Launafólk á ekki eitt að bera ábyrgðina á stöðuleikanum.

Þing Starfsgreinasambands Íslands krefst þess að stjórnvöld axli ábyrgð sína á hagstjórninni og komi á efnahagslegum stöðugleika með lágri verðbólgu, hóflegum vöxtum og stöðugum gjaldmiðli.

 

Ályktun um atvinnumál - Skerðing þorskkvóta / atvinnuuppbygging

Starfsgreinasamband Íslands harmar þá stöðu sem blasir við vegna niðurskurðar þorskkvóta. Þær mótvægisaðgerðir sem kynntar hafa verið munu ekki leysa vanda þeirra sem niðurskurður á þorskkvóta bitnar harðast á. Það er miður að ekki skuli hafa verið haft samráð við verkalýðshreyfinguna varðandi mótvægisaðgerðir áður en þær voru lagðar fram. Nauðsynlegt er að hafa í huga að sá vandi sem atvinnulífið víða á landsbyggðinni glímir við stafar ekki einungis af tímabundinni skerðingu þorskkvótans. Núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi hefur brugðist hvað varðar uppbyggingu fiskistofna og hefur leitt til mikillar byggðaröskunar. Starfsgreinasamband Íslands beinir því til ríkisstjórnarinnar að vera í meiri samvinnu við sveitarstjórnir, heimamenn í byggðarlögum og verkalýðshreyfinguna varðandi atvinnuuppbyggingu til framtíðar. Brýnt er að úrræði byggi á skýrri heildarsýn um byggða- og atvinnumál.

 

Ályktun um

,,nýtt kerfi veikinda, slysa og örorkuréttinda á alm. markaði”

picture_173Unnið hefur verið að hugmyndum að nýju kerfi veikinda‐, slysa‐ og örorkuréttinda á almennum markaði á sameiginlegum vettvangi aðildarsambanda ASÍ í viðræðum við SA. Þessar hugmyndir hafa verið og eru til ítarlegrar kynningar innan Starfsgreinasambands Íslands og eru nú til umfjöllunar hjá aðildarfélögum sambandsins, með það að markmiði að þær hljóti formlega umfjöllun. Þing Starfsgreinasambands Íslands fagnar þessum hugmyndum sem jákvæðu og mikilvægu framlagi til jöfnunar á veikindarétti félagsmanna aðildarfélaga sambandsins og einu mikilvægasta framfaraspori veikinda‐, slysa‐ og örorkuréttinda á almennum vinnumarkaði um langt skeið. Hugmyndirnar gera ráð fyrir að tryggja á markvissan hátt bæði bætt kjör þeirra sem lenda í áfalli sem og betri starfsendurhæfingu en áður hefur þekkst hér á landi. Komi þær til framkvæmda munu þær auðvelda þeim sem forfallast frá vinnu vegna veikinda eða slysa, endurkomu á vinnumarkaðinn að hluta eða öllu leyti. Mikilvæg aðkoma sjúkrasjóðanna mun styrkja skipulag verkalýðshreyfingarinnar og efla tengsl þeirra við sína félaga. Síðast en ekki síst mun aukin árangur af endurhæfingu létta örorkubyrði lífeyrissjóðanna, sem aftur leiðir til hærri eftirlaunagreiðslna félagsmanna.

Þingið hvetur aðildarfélög sín til þess að styðja hugmyndirnar til nánari útfærslu .

 

Ályktun um ILO 158

Þing Starfsgreinasambands Íslands 2007 skorar á Alþingi að fullgilda á yfirstandandi þingi samþykkt nr. 158 frá Alþjóðavinnumálastofnuninni og tryggja með því íslensku launafólki sömu lágmarksréttindi við uppsagnir úr starfi eins og gilda meðal flestra annarra vestrænna þjóða. Fundurinn minnir á að ályktanir um sama efni hafa verið samþykktar á ársfundum sambandsins á undanförnum árum.

 

Ályktun um húsaleigumarkað

Þing Starfsgreinasambands Íslands 3.-5. október 2007, skorar á ríkisstjórnina og sveitarfélög að bregðast við vaxandi erfiðleikum þeirra sem ekki geta eignast eigið húsnæði og verða af þeim sökum að sæta kjörum sem leigjendur á húsnæðismarkaði. Húsaleigubætur hafa staðið í stað og verða að hækka, en þær hafa hvergi nærri fylgt verðlagi á leigumarkaði. Ríki og sveitarfélögum ber bæði lagaleg og siðferðileg skylda til að koma til móts við þarfir fólks varðandi grundvallar hagsmunamál allra fjölskyldna og einstaklinga. Þingið minnir á að Starfsgreinasamband Íslands hafi áður varað við afleiðingum þess að leggja af félagslega húsnæðiskerfið.

 

Greinargerð: Fréttir af okurleigu og fólki í brýnum vanda er dapurleg staðreynd sem ekki ætti að líðast í íslenska nútímasamfélaginu. Efnalítið fólk hrekst úr leiguíbúðum og verður að leita á náðir skyldmenna og kunningja til að hafa þak yfir höfuðið, Því ástandi verður að linna.

Ályktun um ESB og evru

Þing Starfsgreinasambands Íslands telur mikilvægt að kannað verði hvort aðild að Evrópusambandinu og upptaka evru þjóni hagsmunum Íslands. Það þarf að skilgreina kostina og gallana og gefa fólki tækifæri til að átta sig á því hvað muni breytast við mögulega inngöngu. Það verður að vera verkefni ríkisstjórnarinnar á yfirstandandi kjörtímabili.

 

Greinargerð Innganga í Evrópusambandið og upptaka evru er stærra mál en svo að það leysi skammtímaóróleika og ójafnvægi í efnahagslífinu. Ákvörðun um slíkt verður að ráðast af mati á því hvernig hagsmunum okkar er best borgið til lengri tíma. Innganga í Evrópusambandið og upptaka evru hefði í för með sér margþættan ávinning en í því felst einnig óvissa. Meira er vitað um ávinninginn af ESB‐aðild en um mögulegar neikvæðar afleiðingar hennar eins og þeim að tryggja sérhagsmuni Íslands og afleiðingum af óagaðri hagstjórn. Ávinningurinn af ESB‐aðild fælist m.a. í aðkomu að ákvarðanatöku um það laga og regluverk sem við höfum þegar skuldbundið okkur til að innleiða með EES samningnum, án þess að geta komið sjónarmiðum okkar að, svo fullnægjandi sé. Gildissvið ESS‐samningsins vegna vinnumarkaðs‐ og félagsmála hefur verið takmarkað af íslenskum stjórnvöldum, svo sem um málefni fatlaðra, málefni minnihlutahópa, Lissabon‐ferlið í starfsmenntamálum og samtenging efnahags‐, félags‐ og atvinnumála. Aðild að ESB myndi jafnframt hafa í för með sér að Ísland yrði aðili að samstarfi um landbúnaðar‐ og byggðamál og verslun með landbúnaðarvörur yrði frjáls innan samstarfsins. Helstu hætturnar snúa að landbúnaðar‐ og fiskveiðistefnu sambandsins en ljóst er að Ísland þyrfti að tryggja sérhagsmuni sína í aðildarviðræðum ef að aðild á að geta orðið.

Ávinningurinn af upptöku evru væri ef vel tækist til, aukin efnahagslegur stöðugleiki, lægra vöruverð, lægri vextir og minni viðskiptakostnaður. Helstu hætturnar fælust í því að Ísland myndi með upptöku evru afsala sér sjálfstæðri stjórn peningamála. Við slíkar aðstæður gæti kreppa samhliða mistökum í hagstjórn leitt til mikils og þráláts atvinnuleysis og í uppsveiflu gæti þensla og verðbólga orðið enn meiri en ella.

einn rettur logo 002            VIRK starfsendurhæfingasjóður     vertuaverdi