AFL starfsgreinafélag

Saga orlofsréttar

Árið 1942 ölaðist allt íslenskt launafólk rétt til orlofs, samkvæmt lögum. Áður en til lagasetningarinnar kom, hafði þó verið gert samkomulag við atvinnurekendur um að koma á rétti til orlofs. Lögin gerðu því ekki annað en að staðfesta það sem verkalýðshreyfingin hafði náð fram í samningum gagnvart atvinnurekendum. Málið hafði um nokkurt skeið legið fyrir þingi, en fékkst ekki afgreitt fyrir en orlofsrétturinn var orðinn að veruleika.


Aðdragandi þessa máls var nokkur. Árið 1939 höfðu verið sett lög á Alþingi sem takmörkuðu verðlagsbætur á grunnlaun, þó verðhækkanir væru miklar. Síðan skall stríðið á og eftir að landið var hernumið þurfti setuliðið á miklu vinnuafli að halda, þannig að skortur varð á verkafólki. Við þessar aðstæður var mjög erfitt fyrir íslenska atvinnurekendur að keppa um vinnuafl, ekki síst vegna þess að þeim var óheimilt  að bjóða hærri laun.


Lögin um takmörkun á verðlagsuppbótum voru numin úr gildi um áramótin 1941/42, en þá höfðu ýmis verkalýðsfélög boðað til verkfalla. Ríkisstjórnin setti bráðabirgðalög, þar sem settur var gerðardómur í kaupgjaldsmálum og verðlagsmálum, en grunnkaupshækkanir bannaðar. Jafnframt voru verkföll og verkbönn óheimil. Verkalýðsfélögin aflýstu verkföllum en fólk mætti samt sem áður ekki til vinnu. Þessar aðgerðir verkafólks gengu undir nafninu Skæruhernaðurinn og stóðu hæst sumarið 1942. Aðgerðirnar höfðu mikil áhrif á framgang verkefna sem mörg töfðust eða stöðvuðust. Ýmsir atvinnurekendur ákváðu því að hækka laun til að fá fólk til vinnu, jafnvel þó í því fælust lögbrot. Lögin voru þar með ekki annað en orðin tóm og voru skömmu síðar numin úr gildi.


Eftir þennan mikilvæga sigur launafólks voru gerðir almennir kjarasamningar, þar sem náðust margir mikilvægir áfangar í kjarabaráttu launafólks. Samningurinn fól m.a. í sér ákvæði um átta stunda vinnudag, réttinn til orlofs, hækkun yfirvinnutaxta, auk næstum 40% launahækkunar.


Orlofsrétturinn skiptist annars vegar í rétt til leyfis frá störfum og hins vegar í rétt til launa á þeim tíma. Með samningunum 1942 fékkst 12 daga sumarleyfi og atvinnurekendur samþykktu að greiða 4% í orlofslaun. Þetta hlutfall hækkaði í 5% árið 1952 og hefur hækkað nokkrum sinnum síðan.


Samkvæmt núgildandi kjarasamningum skal orlof vera 24 virkir dagar, tveir dagar fyrir hvern unninn mánuð og orlofslaun skulu vera 10,17% af öllu kaupi, hvort sem um er að ræða dagvinnu eða yfirvinnu. Þetta hlutfall hækkar síðan með auknum starfsaldri og orlofsdögum fjölgar.


Orlofshús
Verkalýðshreyfingin lét þó ekki þar við sitja. Það var ekki nóg að eiga lögbundið frí á launum. Til að tryggja að launafólk hefði aðstæður til að nýta orlofið, hófu mörg þeirra byggingu orlofshúsa. Þannig eru nú víða um land orlofsbyggðar verkalýðsfélaga, sem félagsmönnum gefst tækifæri á að leigja á sanngjörnu verði til lengri eða skemmri tíma. Á síðustu árum hefur það færst í vöxt að félög hafa byggt eða keypt orlofshús í útlöndum, til útleigu fyrir félagsmenn. Þessi kaup eru fjármögnuð af svokölluðum orlofs- eða orlofshúsasjóðum, sem og ýmislegt fleira sem viðkemur orlofi félagsmanna. Samkvæmt flestum kjarasamningum er framlag atvinnurekenda til orlofssjóða 0,25% af útborguðu kaupi. Á Austurlandi er framlag launagreiðenda 33% í kjarasamningum verkafólks.