AFL starfsgreinafélag

Til góðra verka

 

AFL starfsgreinafélag AFL starfsgreinafélag AFL starfsgreinafélag AFL starfsgreinafélag AFL starfsgreinafélag AFL starfsgreinafélag AFL starfsgreinafélag

Sterkari verkalýðshreyfing í boði SA!

Umræða um kjarasamninga síðustu vikurnar hefur vakið upp á heimilum og vinnustöðum umræðu um verkalýðspólitík – sem var kannski því miður næsta lítil síðustu ár. Þau skilyrði sem SA hefur sett fyrir því að ganga til samninga, þ.e. . SA-þóknanleg lausn í fiskveiðistjórnunarmálum svo og einstrengingsleg og nánast hrokafull afstaða til kröfugerða einstakra verkalýðssamtaka, kallar á að menn skoði enn og aftur tilgang og baráttuaðferðir verkalýðshreyfingarinnar.

 

Þá hefur og verið dustað rykið af gömlum og þreyttum áróðursaðferðum – talsmenn SA útblása bræðslumenn sem hafa boðað verkfall – sem hálaunamenn í fjölmiðlum – án athugasemda fréttamanna. Bræðslumenn með 7 ára reynslu og námskeið sem í boði eru hafa 236.000 í mánaðarlaun. Byrjendalaun í bræðslu eru 208.000. Þetta eru „ofurlaun" bræðslumanna.

En vissulega eru til tekjuháir bræðslumenn – sem vinna þá á 12 tíma vöktum, 6 daga vikunnar í löngum lotum og leggja því mikið á sig til að afla teknanna.

En þegar SA hefur endurtekið bullið nógu oft fer fólk að trúa því.

Síðustu 20 ár eða svo hefur samráð ASÍ og SA verið mikið og kjarasamningar yfirleitt gengið án verulegra átaka og kaupmáttur hefur vaxið jafnt og þétt. Þetta er afrakstur þjóðarsáttarinnar svokölluðu þegar ASÍ og SA (eða VSÍ eins og það hét þá) höfðu forystu um að keyra niður verðbólgu og náði samkomulagi við ríkisstjórn þess tíma og flestar síðan um ýmsar aðgerðir í efnahagsmálum sem rímuðu við markmið kjarasamninga hvers tímabils.

Síðustu 20 ára hafa um margt verið góð hér á landi og kaupmáttur hefur vaxið talsvert og velmegun fólks og þá sérstaklega „einkavæðingaárin" svokölluðu þegar „fé á hirðis" var hirt og þjóðin veðsett upp fyrir rjáfur. Á meðan leið landinn um í sæluvímu og sinnti lítt umræðu um grundvallargildi og verkalýðshreyfingin varð beinlínis púkaleg – enda voru nægir aurar í umferð og það bara bjargaði hver sér sem hann gat.

Frá bankahruni hefur almenningur – sá hinn sami og var kannski næsta sinnulítill um grundvallaratriði á góðæristímanum – sett spurningarmerki við fjölmörg atriði. Má nefna einkavæðingu ríkisrekstrar, gegnsæi í stjórnsýslu og í almenningshlutafélögum, stóriðjuvæðingu, siðvæðingu í embættisveitingu og síðast en ekki síst – eignarhald auðlindanna.

Á meðan ekki var grundvallarmunur á afstöðu SA og verkalýðshreyfingarinnar til meginmála gat samráð gengið áfallalítið og án verulegra átaka. Baráttan var þá helst um upphæð kauphækkana en aðilar komu yfirleitt saman fram í samskiptum við ríkisvald með áþekkar áherslur. Í skugga þessarar samvinnu, sem vissulega skilaði hægt vaxandi kaupmætti, varð „einförum" innan ASÍ lítið ágengt.

Kosturinn við þetta vinnulag er vissulega stöðuleiki og friður á vinnumarkaði en gallinn er sá að launastrúktúrinn sem er í launatöflum í dag er nánast eins og greyptur í stein. Hver sá hópur innan verkalýðshreyfingarinnar sem hyggst bæta stöðu sína er nánast litinn hornauga og skiptir þá engu hvernig viðkomandi atvinnugrein stendur. Auðvitað eru frávik frá þessu en þau virðast aðeins gilda aðra leiðina – þ.e. þegar góðæri er taka við svokölluð „markaðslaun" þar sem launagreiðendur greiða yfirborganir og taxtar eru í besta falli tilviðmiðunar – en þetta gildir ekki í öllum greinum.

Lægst launuðu félagar innan ASÍ eru almennt á kauptöxtum og sérstaklega á landsbyggðinni þekktust ekki yfirborganir. Og þegar kreppir að og yfirborganir eru teknar af þeim sem þeirra nutu í góðærinu hafa margir orðið til að finna til félagslegrar samkenndar – og krefjast þess að allir fái jafnmikla kauphækkun. Það breytir engu þó svo að fiskvinnsla og útflutningur sé nú í sömu stöðu og þjónusta og verslun var í fyrir fáum árum – þ.e. þar flæðir fé um ganga. Það er talið ógna stöðugleika að starfsmenn þessara greina nái að bæta kjör sín – á meðan það hafði víst lítil áhrif á stöðuleikann að þetta sama fólk var bara áhorfendur að „góðærinu".

Það skiptir einnig engu máli þó svo að aukin launahækkun í fiskvinnslu og áliðnaði myndi ekki hafa minnstu áhrif innanlands nema bæta stöðu nokkur þúsund fjölskyldna því þessi mögulega „launahækkun" rennur nú óskipt til eigenda og stærstu upphæðirnar úr landi.

Bræðslumenn stefna nú á verkfall á þriðjudag og enn eru óveidd tugþúsundir tonna af loðnu þannig að tjón samfélagsins og þessara fyrirtækja og bræðslumann sjálfra verður umtalsvert. Tjónið virðist fyrst og síðast stafa af grundvallarsjónarmiðum SA og þvermóðsku.

Samtökin ætla að semja við alla í einu – skítt með sjálfstæðan samningsrétt.

Samtökin eru búin að móta „samræmda" launastefnu-viðsemjandinn er nánast ekki spurður

Samtökin ætla að láta ríkisstjórnina skipa fiskveiðistjórnun – kvóta – að sínum geðþótta.

Verkfallið næsta þriðjudag snýst að verulegu leyti um þessi atriði – þ.e. bræðslumenn AFLs og Drífanda eru ekki tilbúnir til að láta setja sig í kassa „alla eins" heldur vilja gera sinn kjarasamning og standa og falla með honum.

Kröfugerð okkar, sem vissulega hljóðar upp á 27% hækkun taxta, erum við tilbúnir að semja um – en við rétt eins og SA getum haft okkar grundvallarsjónarmið og við þau stöndum við.

Upphafleg kröfugerð okkar þýddi að maður með verulega starfsreynslu og þekkingu á starfinu myndi hafa 300.000 í mánaðarlaun – en í síðustu viku gerðum við SA tilboð á allt öðrum nótum – þ.e. samning til 30. nóv með 7,5% hækkun taxta. Því var hafnað orðalaust. Það er því ekki kröfugerð okkar sem er að flækjast fyrir SA.

Í samningaðræðum ASÍ og SA fyrir helgi brá í skamma stund fyrir vonarneista – þ.e. að SA hefði látið af hótunum sínum gagnvart launafólki vegna fiskveiðistjórnunarkerfis framtíðarinnar. Í hádegisfréttum í gær slökkti talsmaður SA þann vonarneista.

Það er því engin ástæða til að vera bjartsýnn á að samningar takist við bræðslumenn fyrir þriðjudag og við búum okkur undir langt og hart verkfall.

Á meðan því stendur mun fólk væntanlega ræða samfélagslegan tilgang verkalýðsfélaga - þ.e. baráttu fyrir því þjóðfélagi sem við viljum og þá verður verkalýðshreyfingin sterkari á eftir. Allt í boði SA.

Sjá einnig:  Hin hliðin á fréttunum

og Verkalýðshreyfingu og almenningi_stillt upp við vegg

einn rettur logo 002            VIRK starfsendurhæfingasjóður     vertuaverdi